Í þessum hluta förum við yfir orðin sem skapa sjálfsmynd margs hinsegin fólks. Þetta eru orðin sem notuð eru yfir hinar margvíslegu kynhneigðir og kynvitundir og orð sem tengjast kynverundinni. Þar sem þessi orð snúast flest um sjálfsmynd fólks viljum við ítreka að þessum vef er ekki ætlað að útvarpa hinum eina sanna sannleik um skilgreiningar hugtakanna. Það er alveg örugglega til fólk sem er pankynhneigt, trans og sveigjanlega samkynhneigt sem skilgreinir þessi hugtök á annan hátt en hér er gert. Það er allt í góðu lagi. Það er eðli tungumálsins að vera óstöðugt og breytilegt. Sú manneskja sem notar tiltekið orð yfir sjálfsmynd sína hverju sinni hefur alltaf rétt fyrir sér. Ekki þessi vefur, ekki orðabók, ekki íslenskufræðingar og ekki hinsegin samtök, heldur manneskjan sjálf.

Það sem flestum dettur í hug þegar þeir heyra orðið hinsegin í dag er samkynhneigð. Eins og rakið var í kaflanum um hugtakið hinsegin er það þó mun víðtækara en svo. Þessi hluti skiptist í fjóra undirkafla: kynhneigðir, kynvitundir, kyneinkenni og ólík sambandsform.