Að leiðrétta kyn sitt
Kynleiðrétting er ferli sem sumt trans fólk fer í gegnum til að leiðrétta kyn sitt. Það getur til að mynda falið í sér hormónainntöku, brjóstnám og/eða aðgerðir á kynfærum. Kynleiðrétting vísar ekki eingöngu til skurðaðgerða á kynfærum þó að slík aðferð geti verið einn þáttur kynleiðréttingarferlis.
Ekki nauðsynlegt að fara í aðgerðir til að vera trans
Sumt trans fólk kýs að fara eingöngu á hormóna en sleppir öllum aðgerðum. Aðrir fara í aðgerðir eins og brjóstnám en sleppa öðrum þáttum kynleiðréttingar. Val hvers og eins einstaklings er mjög persónuleg ákvörðun og að baki þess geta legið margvíslegar ástæður. Hérlendis er ekki skylda að fara í nokkurs konar aðgerðir eða taka inn hormón til að fá leiðréttingu á kyni sínu í þjóðskrá. Þó þarf fólk að hafa lifað í því kynhlutverki sem það kýs sér í ákveðinn tíma áður en slík leiðrétting fer fram. Fólk getur verið trans hvort sem það kýs að fara í kynleiðréttingarferli eða ekki.
Áður var oft talað um kynskiptaaðgerð og um trans fólk sem kynskiptinga. Þetta eru ekki orð sem trans fólk hefur sjálft kosið sér og því ber að forðast að nota þau. Kynleiðrétting lýsir ferlinu betur þar sem fólk upplifir að það sé að leiðrétta kyn sitt fremur en að það sé að skipta um kyn.
Gender reassignment