Íþróttafélag hinsegin fólks

Íþróttafélagið Styrmir var stofnað árið 2006 í kjölfar þess að hópur samkynhneigðra karla fór að hittast á Klambratúni til að spila knattspyrnu. Í fyrstu var það aðeins ætlað körlum sem vildu sparka bolta en ekki leið á löngu þar til það var opnað íþróttaiðkendum af öllum kynjum og tvær deildir bættust við, sunddeild og blakdeild. Markmiðið með félaginu er að veita hinsegin fólki öruggan stað til að stunda íþróttir en algengt er að það hrökklist úr íþróttum á unglingsárum. Styrmisfólk hefur allt frá stofnun félagsins farið á stór hinsegin íþróttamót erlendis, eins og Gay Games og World Outgames, og hélt stórt sundmót á vegum Heimssundsambands samkynhneigðra, IGLA, árið 2012.