Regnhlífarhugtak

Hérlendis hefur orðið hinsegi öðlast sess sem regnhlífarhugtak yfir allt það fólk sem er ekki gagnkynhneigt og/eða fellur ekki inn í það sem telst hefðbundið kyn eða kynhlutverk. Orðið hefur verið notað í þessari merkingu í það minnsta frá árinu 2000. Árið 2009 var heiti Samtakanna ’78 breytt úr „félag lesbía og homma á Íslandi“ í „félag hinsegin fólks á Íslandi“. Þessi breyting var þess fallin að auka samstöðu félaga um einn ákveðinn samnefnara, ásamt því að gera fólki kleift að finna sér stað innan félagsins á eigin forsendum.

Endurskilgreining

Áður var hinsegin-hugtakið stundum notað sem samheiti yfir það að vera samkynhneigður eða sem lýsing á „afbrigðilegri“ kynhegðun, þá oftast á niðrandi hátt en hefur á undanförnum árum verið notað af hinsegin fólki sem jákvætt og sameinandi orð.

Þessi endurskilgreining orða sem áður voru niðrandi þjónar mikilvægum tilgangi í réttindabaráttu jaðarsettra hópa og getur stuðlað að bættri stöðu hópsins í samfélaginu. Orð sem áður voru notuð til að lýsa yfir fyrirlitningu á margbreytileikanum eru nú notuð til að fagna fjölbreyttum kynhneigðum, kyneinkennum og kynvitundum og kyntjáningum. Nokkur dæmi eru um orð sem hafa verið endurskilgreind á þennan hátt af þeim hópum sem um ræðir hverju sinni. Á ensku eru þetta til að mynda orðin nerd (nörd) og slut (drusla).

Árið 2021 skrifaði Þorbjörg Þorvaldsdóttir, þáverandi formaður Samtakanna ’78 pistilinn Hinsegin orðaforði í Tímarit Hinsegin daga um skilgreiningar og tungumálið.

Stafasúpan

Skammstafanir á borð við LGBTQIA (lesbian, gay, bisexual, transsexual, queer, intersex, asexual) eða STT (samkynhneigðir, tvíkynhneigðir, trans) hafa ekki náð að festast í sessi hérlendis. Þær hafa tilhneigingu til að lengjast mjög en ná þó ekki að vísa til allra hópa eða einstaklinga í menginu því orðanotkun og sjálfsmyndarpólitík er síbreytileg. Við notum því orðið hinsegin þegar það á við. Hinsvegar er mikilvægt þegar talað er sérstaklega um trans fólk, homma eða aðra að tala beint um hópana svo sýnileiki þeirra hverfi ekki.

En á ensku?

Queer

Enska orðið queer hefur talsvert róttækari skírskotun en orðið hinsegin á íslensku. Notkun queer á ensku hefur mjög sterka tengingu við pólitískt andóf gegn ríkjandi hugmyndum um kyn og kynhegðun.



Viltu vita meira?