Grá eikynhneigð vísar til þess að kynferðisleg aðlöðun sé róf fremur en tveir aðskildir flokkar. Þannig flokkast fólk ekki eingöngu í flokkana tvo eikynhneigðir og svo allir hinir sem hafa áhuga á kynlífi heldur er um að ræða róf þar sem fólk getur upplifað meiri eða minni aðlöðun að öðru fólki kynferðislega. Grá eikynhneigt fólk staðsetur sig nálægt eikynhneigð á þessu rófi og finnur því til lítillar kynferðislegrar aðlöðunar. Sumt grá einkynhneigt fólk kallar sig þó eikynhneigt dags daglega enda má segja að grá eikynhneigð sé undirflokkur eikynhneigðar.

Munurinn á grá eikynhneigðum og eikynhneigðum manneskjum er sá að þau sem eru eikynhneigð upplifa almennt enga kynferðislega aðlöðun eða þörf til að svala henni. Þau sem eru grá eikynhneigð finna fyrir kynferðislegri aðlöðun en hún er það lítil að þau finna sig ekki innan annarra kynhneigða á borð við gagnkynhneigð eða samkynhneigð. Eða þá að þau finna fyrir kynferðislegri aðlöðun og hafa þörf fyrir að svala henni en eingöngu undir mjög sértækum kringumstæðum. Sumt grá eikynhneigt fólk upplifir til dæmis eingöngu kynferðislega löngun til fólks sem það hefur djúpstæða tilfinningalega tengingu við (það kallast demisexual á ensku). Líkt og eikynhneigt fólk upplifir sumt grá eikynhneigt fólk rómantíska hrifningu.

En á ensku?

Graysexual, gray asexual, grace, gray ace eða gray-a


Orð um orð

Gray asexual hefur ekki verið þýtt áður á íslensku. Hér er gerð tilraun með að beinþýða hugtökin.