Drag

Drag er það kallað þegar fólk klæðist fötum og sýnir látbragð sem talið er tengjast „gagnstæðu kyni“ á einhvers konar sýningu eða gjörningi. Þá er yfirleitt talað um dragkónga og dragdrottningar. Aftur á móti er talað um klæðskipti þegar fólk kýs sjálft að fara í föt sem talin eru tengjast „gagnstæðu kyni“ án þess að það sé hluti af sérstökum listgjörningi eða leikhúsi. Þá má nefna að sem listform hefur drag tengst hinsegin samfélaginu náið síðastliðna öld eða svo, enda eru dragdrottningar og -kóngar gjarnan hinsegin.

Dragkóngar og -drottningar

Dragkóngar eru yfirleitt konur eða kynsegin fólk sem leikur karlkyns persónur, þ.e. klæðir sig upp og hegðar sér á ákveðinn hátt sem telst karlmannlegur. Á sama veg eru dragdrottningar yfirleitt karlar eða kynsegin fólk sem leikur kvenkyns persónur, þ.e. klæðir sig upp og hegðar sér á ákveðinn hátt sem telst kvenlegur. Þó hafa hvorki drag né klæðskipti, eins og við þekkjum þessi tjáningarform á Vesturlöndum í dag, neitt að segja um kynhneigð eða kynvitund fólks.

Drag í sögunni

Leiða má líkur að því að fólk hafi klætt sig upp eða komið fram í gervi fólks af öðru kyni alveg síðan það fór að tíðkast að konur og karlar klæddust á ólíkan hátt. Heimildir eru til dæmis um þess konar gjörninga frá Grikklandi hinu forna, úr klassísku kínversku leikhúsi og frá tímum Shakespeares og Elísabetar I Englandsdrottningar. Víða í heiminum var konum einmitt óheimilt að leika á sviði og því fóru karlar með öll hlutverkin, jafnt karl- sem kvenhlutverk. Einnig virðist um þvermenningarlega iðju að ræða þar sem heimildir finnast um klæðskipti og „drag“ meðal indíanaþjóða Norður-Ameríku og fleiri frumbyggjaþjóða.

Þó er oft erfitt að greina á milli klæðskiptinga, dragkónga eða -drottninga og trans fólks í samfélögum utan Vesturlanda samtímans, því þessar sjálfsmyndir og hugtök eru ekki skilgreind með sama hætti alls staðar eða á öllum tímaskeiðum. Við verðum því að fara varlega í því að yfirfæra þessi hugtök á fortíðina og önnur menningarsamfélög.

Dragdrottningar, dragkóngar og klæðskiptingar hafa, ásamt trans konum, verið leiðandi afl í réttindabaráttu hinsegin fólks, svo sem í mótmælum eins og hinum þekktu Stonewall-uppþotum, og eru fastur liður í pride-göngum um allan heim.