Að vera trans

Trans er regnhlífarheiti yfir fólk sem er með kynvitund sem samræmist ekki því kyni sem því var úthlutað við fæðingu. Þegar við fæðumst er í langflestum tilfellum tilkynnt um kyn okkar, hér er fæddur lítill drengur eða lítil stúlka. Fólk sem hefur aldrei þurft að efast um að þessi tilkynningin hafi verið rétt er sískynja. Þetta á við um velflesta.

Trans fólk, aftur á móti, hefur á einhverjum tímapunkti efast um að það kyn sem tilkynnt var um við fæðingu sé rétt og passi. Athugið að hér er ekki átt við líffræðileg kyneinkenni fólks heldur upplifun fólks af kyni sínu. 

Undir trans regnhlífina falla trans karlar og trans konur, fólk sem fer í leiðréttingaraðgerðir, fólk sem fer ekki í aðgerðir og kynsegin fólk. Trans er á íslensku notað sem lýsingarorð eitt og sér (sbr. að vera trans) eða með öðrum orðum (sbr. hún er trans kona).

Trans? Karl eða kona?

Margt fólk ruglar saman orðunum trans karl og trans kona. Góð þumalputtaregla til að muna merkingu hvors orðs er að alltaf er talað um fólk í því kyni sem það er í dag. Þannig er trans karl til dæmis manneskja sem í æsku (eða lengur) var álitin stelpa/kona af samfélaginu en lifir í dag sem karl.

Sumt trans fólk kýs að nota orðið trans um sjálft sig og segist til að mynda vera trans kona. Annað trans fólk notar það hugtak lítið eða alls ekki um sjálft sig. Þar geta legið ólíkar ástæður að baki. Margt trans fólk upplifir það sem mótandi þátt fyrir sjálfsmynd sína að hafa farið í gegnum kynleiðréttingarferli eða verið álitið af öðru kyni í æsku. Þannig finnst því mikilvægt að nota orðið trans um sjálft sig til að leggja áherslu á hversu stór og mótandi þáttur það að vera trans er. Annað trans fólk upplifir þetta á ólíkan hátt og finnst það að vera trans ekki miðlægur þáttur í þeirra sjálfsmynd. Þeim finnst mikilvægara að vera kona, karl eða manneskja (fremur en trans kona, trans karl eða trans manneskja) og vilja stundum síður að annað fólk viti að það sé trans. Mikilvægt er að virða val hvers og eins í þessum efnum.



Tengist ekki kynhneigð

Það að vera trans vísar til kynvitundar en ekki kynhneigðar. Trans fólk getur haft hvaða kynhneigð sem er. Áður fyrr var það talið merki um að fólk væri raunverulega trans ef það reyndist gagnkynhneigt eftir að hafa farið í gegnum kynleiðréttingu. Í dag hefur þekkingu okkar fleygt fram og gagnkynhneigð er af læknum ekki álitin eftirsóknarverðari eftir kynleiðréttingu en hvaða önnur kynhneigð sem er.

Trans börn

Vegna þess hve mjög umræðan um trans málefni hefur opnast er trans fólk sífellt yngra þegar það getur tjáð sig um kynvitund sína. Á Íslandi eru í dag fjölmörg dæmi um börn á grunnskólaaldri og jafnvel á leikskólaaldri sem eru trans og lifa í samræmi við það kyn sem þau upplifa að passi þeim best.

En á ensku?

Transgender



Orð um orð

Trans- er latneskt forskeyti sem merkir „hinum megin við“. Manneskja sem er trans er „hinum megin við“ kynið sem henni var úthlutað við fæðingu.

Áður fyrr var hugtakið kynskiptingur notað en það er úrelt í dag og þykir niðrandi. Kynskiptingur vísar til þess að fólk skipti um kyn en upplifun trans fólks er sú að það leiðrétti kyn sitt fremur en skipti um það.


Viltu vita meira?