Allt fram undir lok 20. aldar voru Samtökin ‘78 einvörðungu samtök homma og lesbía. Á tíunda áratugnum reyndi þó tvíkynhneigt fólk að fá samtökin til að útvíkka starfsemi sína og huga að málefnum tvíkynhneigðra en undirtektir voru dræmar. Árið 1993 greip 11 manna hópur tvíkynhneigðra einstaklinga og samkynhneigðra stuðningsmanna þeirra til sinna ráða, sagði sig úr Samtökunum og stofnaði sinn eigin vettvang, Félagið. Tveimur árum eftir stofnunina voru félagarnir 120 en virkir félagar í kringum tuttugu. Fleiri samkynhneigðir en tvíkynhneigðir voru þá í Félaginu vegna þess að, að sögn eins aðstanda þess, að þeir voru ekki hrifnir af „einangrunarviðhorfi” Samtakanna. Starfsemin var þó lögð niður þegar Samtökin tóku tvíkynhneigða eintaklinga formlega inn í sínar raðir og flestir skiluðu sér aftur til „Stóru systur“.

Félaginu var meðal annars ætlað ákveðið fræðsluhlutverk um bæði samkynhneigð og tvíkynhneigð og fór með fræðslufundi í skóla. Það var einnig í réttindabaráttu og duglegt við að taka þátt í samfélagsumræðu og sendi bæði fjölmiðlum og yfirvöldum tóninn þegar því þótti eitthvað mega betur fara. Félagið hafði óvenjulega uppbyggingu fyrir félagasamtök á þessum tíma, ekki ósvipaða skipulagi kvennahreyfingarinnar, en þar var engin stjórn eða annars konar yfirvald. Allir félagsfundir voru stjórnarfundir og þangað máttu allir félagar koma til að taka þátt í ákvörðunum félagsins. Það hafði því yfir sér talsvert meiri grasrótarbrag en Samtökin ‘78.

Nánar má lesa um Félagið í viðtali við Eystein Traustason: Alþýðublaðið 5. júlí 1996, bls. 7.