Við hjónin erum fjölelskandi og höfum verið í um tvö ár. Síðastliðið árið hef ég, auk nokkurra elskhuga sem stoppa við í lengri eða skemmri tíma, átt í sambandi (sem kærustupar) við mann sem er mér níu árum yngri. Við getum umgengist öll þrjú sem vinir enda kannast börnin alveg við hann og hann er okkar stoð og stytta þegar bjátar á.
Ég gisti hjá honum u.þ.b. einu sinni viku og hef mína eigin fataskúffu og tannbursta þar. Maðurinn minn ber fulla virðingu fyrir sambandi okkar og leggur sitt af mörkum til að styðja, gleðjast og gefa okkur tíma til að umgangast.
Mér finnst ferlega leiðinlegt að þurfa að fara í felur með það sem í raun er gleðiefni fyrir mig og eiginmann minn. Og kærustur/a okkar! Það græða allir á þessu nema fólk sem er fast í norminu um að svona „eigi þetta ekki að vera!“ og finnst að með því að iðka þessa hegðun þá séum við að hæðast að eða gera lítið úr standard-hjónabandi. Sem við erum alls ekki að gera! Auðvitað vitum við að þetta hentar ekki öllum. Sjálf vorum við 10 ár í mono-hjónabandi og ekkert nema fínt um það að segja.
Af hverju á það að vera eðlilegt að halda framhjá og skilja svo og sundra fjölskyldum á þann veg? Af hverju er það betra fyrir börnin að þau umgangist bara fólk sem á ekki í kynferðislegu sambandi við foreldra þeirra. Hvað kemur það málinu við eiginlega? Ef stjúpfjölskyldur eiga að geta dafnað undir eðlilegum kringumstæðum ættu poly-fjölskyldur eða sambönd vissulega að gera það líka.
Við álítum okkur að vissu leyti hinsegin, við skiljum allavega baráttu hinsegin fólks töluvert betur og ef það að standa sameinuð sem ein rödd til að fá undirtektir er það sem virkar best þá gerum við það sannarlega. Þó að ég sé gagnkynhneigð þá er ég strax orðin samfélagslega óviðurkennd að vera svo „gráðug og kræf“ (=drusla!) að geta ekki látið mér EINN mann nægja tilfinningalega og kynferðislega. Þegar ég umgengst kærasta minn og börnin eru ekki nærri þá er ég ekki í neinum feluleik. Við leiðumst niður Laugaveginn og kyssumst í Krónunni. Ef vinnufélagi eða kunningi myndi sjá okkur og vilja spyrja nánar þá skal ég með glöðu geði útskýra hvernig málin standa. Nánasta fjölskylda veit af þessu, þó þau sætti sig ekki endilega við það.
Að geta sleppt eignarhaldi á hvort öðru og orðið um leið öruggari á alla kanta er æðisleg tilfinning. Ég hef vaxið og dafnað alveg óheyrilega síðastliðin ár og finnst ég sterkari en nokkru sinni fyrr!