Ég var alltaf mjög innhverft barn og byggði sjálfsmynd mína á augljósum mælanlegum hlutum eins og einkunnum í skóla. Foreldrar mínir ýttu undir þessa ímynd ómeðvitað með því að hrósa mér fyrir velgengni í skóla og fyrir að vera góðhjörtuð, sem ég veit þó að móður minni fannst ganga út í öfgar. Ég var alltaf tilbúin að gefa fólki annan séns sama hvað það hafði gert á minn hlut.

Sem barn faldi ég vel mitt helsta leyndarmál sem var það að ég lék mér að því að binda og flengja dúkkurnar mínar. Ég áttaði mig snemma á því að þetta þótti ekki eðlileg hegðun. Þessir leikir gáfu mér samt ánægju sem ég upplifði ekki annars staðar. Ég skammaðist mín fyrir þetta því ég vissi að ég var öðruvísi.

Þegar ég var nítján ára og hlustandi á óhefðbundna tónlist small allt í einu eitthvað í huganum á mér. Lagið sem ég hlustaði á var vel hægt að túlka sem andfemínískt. Og samt áttaði ég mig á að textinn kveikti í mér kynferðislega. Ég hafði aldrei upplifað nákvæmlega þessa tilfinningu áður. Ég mundi allt í einu eftir skammstöfuninni S&M sem ég hafði séð fjallað um í bíómyndum. Ég vissi að það fjallaði um að njóta þess að veita eða upplifa sársauka. Á einu sekúndubroti áttaði ég mig á að ég væri masókisti. Ég vildi upplifa sársauka. Á sama augnabliki helltist yfir mig vonleysi yfir að vera eina manneskjan á Íslandi með þessar tilfinningar. Ég fór á internetið til að læra meira. Ég lærði skammstöfunina BDSM fljótlega og það að ég var í raun alls ekki ein á landinu. Í raun voru margir aðrir með sömu tilfinningar og ég. Ég var svo spennt að ég hellti mér undir eins í djúpu laugina.

Eftir nokkra daga var ég þekktur meðlimur í íslensku BDSM senunni. Ég þurfti ekki einu sinni að prófa eitt skipti til að þekkja masókistann í sjálfri mér. Að upplifa sársauka og að þjást líkamlega er meira en kynferðislega æsandi hugsun. Ég kemst á annað stig. Að upplifa sterkan sársauka er erfitt.

En þegar líkaminn og hugurinn sætta sig við skynjunina þá kemst hugurinn í sáttarástand sem ég fæ ekki annars staðar. Ég svíf í sátt við alheiminn. Ég get tekið við og þolað hvað sem er. Ég er sterk og ég brotna ekki hvað sem á dynur. Ekkert getur brotið mig. Ég nýt þess að þjást. Og í því hugarástandi er ekkert sem getur stöðvað mig. Ég mun ekki bogna. Ég er í undirgefinni stöðu en mér líður ekki þannig. Ég hef allt valdið á mínum höndum. Sársaukann mun ég þola næstu fimm mínúturnar eða að eilífu. ÉG GET ALLT. Valdið er mitt og ekkert skiptir máli annað en þessi yndislega tilfinning. Ég er á toppi alheimsins. Sársaukinn sendir hug minn á flot um þann veruleika sem ég þekki. Ekkert er of mikið. Ég þoli hvað sem er.

Nafnlaus innsending