Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, nú 25 ára gömul, að ég er asexual. Ég hef alltaf verið það, en áður en ég áttaði mig á því gerði ég alltaf ráð fyrir því að kynlíf væri eitthvað sem maður „ætti að gera“ í sambandi. Eitthvað sem væri mikilvægur og óaðskiljanlegur partur af öllum samböndum. Eða svo hélt ég. Til að vera „normal“. Ég var beitt hópþrýstingi, þannig séð, að stunda kynlíf í fyrsta sinn. Svo byrjaði ég í fyrsta „alvöru“ sambandinu mínu. Ég og manneskjan sem ég var með þá stunduðum mikið kynlíf, til að byrja með. Samt eiginlega bara af því ég hélt að það væri það sem ég ætti að gera. En líka til að vera „normal“. Sérstaklega þar sem ég var enn að þykjast vera karlmaður á þeim tíma, ég var ekki enn komin út úr skápnum sem trans. Ég var aldrei kynferðislega hrifin af þessari manneskju.

Ég finn ekki fyrir kynferðislegri hrifningu eða löngun gagnvart neinum. Eða ég kannast allavega ekki við þessa tilfinningu, ég hef aldrei gert það.

Það er mikil þörf á fræðslu og vitundarvakningu í okkar samfélagi þegar kemur að öðrum kynhneigðum en samkynhneigð og gagnkynhneigð. Eikynhneigð er mjög oft ósýnileg. Ég vil sjá breytingu á því. Ég vil sjá að fólk sé ekki dæmt skrýtið eða bilað fyrir það að hafa engan áhuga á kynlífi.

Ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en ég var 25 ára. Ég er enn að efast um sjálfa mig. „Er ég í raun asexual? Hvernig get ég í raun vitað það? Er ég ekki bara að þykjast?“

Það sem skiptir máli er það sem þú veist um þig. Engin önnur manneskja þekkir þig betur en þú.

Það er oft mjög erfitt að loka á þessar endalausu spurningar sem maður hefur gagnvart sjálfum sér, svo ekki sé talað um allt ruglið sem maður fær frá öðrum, en það tekst á endanum. Það sem skiptir máli er að hlusta á sjálfan sig. Svo eru efasemdir alveg eðlilegar!

Nafnlaus innsending