Ég kom út úr skápnum sem lesbía í Bandaríkjunum á áttunda áratugnum, þá 23 ára gömul. Hinsegin menning og samfélag var þá í fullum blóma í Bandaríkjunum þar sem ég var í háskólanámi og ég gjörsamlega blómstraði þar og síðar í Kanada þar sem ég bjó eftir námið. Tækifærin til þess að umgangast aðrar lesbíur og kynnast þeim voru ótakmörkuð og það voru ótrúlega margar týpur af lesbíum sem maður gat mátað sig við.

Það má segja að sjálfsmynd mín sem lesbía, einstaklingur og femínisti hafi mótast í þessum samfélögum lesbía sem ég var hluti af í mörg ár.

Ég fór í gegnum ýmis tímabil svo sem eins og að vera butch, butch femme, techno lesbía. Í dag myndi ég segja að ég væri með eins konar fljótandi sjálfsmynd. Sjálfsmyndin mín er ein heild nokkurra sjálfsmynda, þar á meðal lít ég á mig sem lesbíu, konu og í dag tengist sú sjálfsmynd ekki einhverju ákveðnu menningartengdu lúkki. Ég á mér einnig aðrar sjálfsmyndir, eins og fagsjálfsmynd.

Ég sakna oft daglegra samskipta við lesbíur og þess ríka samfélags sem ég var hluti af í útlöndum og einnig hér heima á Íslandi á einhverju tímabili því maður speglar sjálfsmyndina sína í samskiptum við þá sem maður á eitthvað sameiginlegt með eins og í öllum hópum og samfélögum.

Þannig að þrátt fyrir jöfn réttindi til þátttöku í íslensku samfélagi og mína sterku sjálfsmynd sem lesbíu þá finnst mér ég þó þurfa að hafa aðgang að lesbísku samfélagi sem í dag er þónokkru minna sýnilegt en áður var.

Nafnlaus innsending