Þegar ég kynntist polyamory, eða fjölástum, fannst mér það vera hættulegt, spennandi, óleyfilegt og byltingarkennt. Hugmyndin um að það mætti bera rómantískar eða kynferðislegar tilfinningar til fleiri en einnar manneskju í einu án þess að skammast sín og að kona þyrfti ekki sjálfkrafa að taka afbrýðisemiskast ef elskhugi hrífst af öðrum einstaklingi var kollvörpun á þeim samfélagslegu reglum sem ég taldi sannleika. Félagar mínir lásu bókina The Ethical Slut sem ég þorði varla að koma nálægt. Hvað myndi fólk halda um mig? Loks þorði ég að kaupa hana, stakk ofan í tösku, hjólaði beina leið heim og vonaði að enginn hefði séð mig. Ég las hana í smá bútum án þess að segja nokkrum.
Smám saman byltist heimssýnin, sjálfstraustið jókst og ég fór að geta tekið þátt í umræðum um poly án þess að roðna eða finnast ég vera að gera eitthvað sem ég hefði engan rétt til.
Fyrst sagði ég sjálfri mér að að sjálfsögðu væri þessi áhugi einungis fræðilegur. Að hugsa um að brjóta allar sambandsreglur sem ég þekkti lét mér líða eins og óþekku barni sem svindlaði sér inn á bannaða mynd. Allt of ævintýralegt fyrir venjulegu mig.
Eða hvað?
Eftir dálítinn tíma fór ég að velta því fyrir mér hvenær ég hafði upplifað þessar tilfinningar áður. Jú – það var þegar ég var að gera mér grein fyrir því að gagnkynhneigð passaði ekki alveg við mig. Ýmislegt small og annað losnaði og aftur gaf ég sjálfri mér frelsi til að vera aðeins öðruvísi en mér var sagt að ég ætti að vera. Með því er ég ekki að segja að hinsegin og poly sé það sama. Það er það ekki. En það eru tengingar þarna á milli. Hvort tveggja tengist tilfinningum, löngunum, fjölskyldum, líkömum og því sem við gerum í svefnherberginu. Allt þetta óáþreifanlega og mannlega sem kynjakerfið njörvar niður og setur í falleg lítil box með leiðbeiningum handa okkur svo við verðum ekki ringluð.
Á svipuðum tíma kynntist ég hugmyndafræðinni um samþykki og hversu mikilvægt það er að ræða hlutina. Segja þá upphátt en ekki gera ráð fyrir því að hin manneskjan vilji það sama og þú. Ekki fylgja formúlu sem við höfum lært með himnuflæði án þess að hafa stoppað og skoðað hvort hún henti okkur.
Þó það geti verið erfitt og vandræðalegt að segja hlutina upphátt, sérstaklega þegar þeir eru að mótast, þá er það nauðsynlegt ef meiningin er að byggja upp eitthvað sem uppfyllir þarfir allra aðila. Annars erum við bara að hoppa á rússíbanavagn sem fer fyrirfram mótaða leið og vona að það sé skemmtilegt. Af hverju gera það þegar það er hægt að ákveða leiðina sjálf, saman?
Pólýamory hefur fært mér ævintýri, erfiðleika, sjálfsþekkingu, óhamingju, gleði, stundum nýjan skáp og stundum frelsi. Sama hvort næstu sambönd mín verða opin eða lokuð, í formi þríhyrnings eða stjörnu, þá veit ég að það mun verða rætt og ákveðið í sameiningu milli mín og hins/hinna, og þar af leiðandi vera samband sem er sniðið að þörfum okkar allra.