Það eru engir hatursglæpir á Íslandi!

Einu sinni var ráðist á strák sem ég kannast aðeins við, niðri í bæ. Hann var barinn frekar harkalega og kallaður öllum illum nöfnum – eða ekki öllum, eiginlega bara niðrandi nöfnum sem tengdust kynhneigð hans. Strákurinn er hommi eða á tungutaki árásarmannsins helvítis hommaógeð. Málið er skýrt dæmi um hatursglæp gegn samkynhneigðum einstaklingi. Brotaþoli var valinn vegna andúðar árásarmannsins á samkynhneigð. Það er hatursglæpur, eða hvað?

Ísland er sko paradís fyrir allt hinsegin fólk! Að halda öðru fram er fáránlegt! Eiginlega bannað … og fer gegn hagsmunum atvinnulífsins enda hinsegin túrismi hin nýja útrás sem meika á böns of monníz! Í paradísinni er ekkert pláss fyrir hatursglæpi.

Þess vegna þarf að kæfa allar hugmyndir hinsegin fólks um að við verðum fyrir slíku strax í fæðingu. Greyið strákurinn, nánir vinir og hinsegin stuðningsfólk reyndi að ræða það samfélagsmein sem hinseginfælni er, en allt kom fyrir ekki. 320 þúsund sérfræðingar voru mættir á sviðið. Þetta var sko alls ekki hatursglæpur – bara eitthvað allt annað, hvað sem tína mátti til – árásarmaðurinn var drukkinn, sagði niðrandi hluti um kynhneigð mannsins í hita leiksins og ákvað að lumbra á kauða bara af því bara. Alls, alls, alls ekki vegna fordóma – þetta var sko enginn andskotans hatursglæpur!

Þegar svo ekki var hægt afneita fordómum gegn hinsegin fólki – og trúið mér það er ítrekað reynt enda er Ísland paradís hinsegin fólks, Jóhanna er sko lesbía!!! – þá breyttist umræðan og strákurinn sem ráðist á var ferlegur vælukjói, og reyndar bara hinsegin fólk á Íslandi sem hefur það bara rosalega fínt miðað við hinsegin fólk í útlöndum, sem ekki eru paradís eins og Ísland.

Árið 2008 gerði Ríkislögreglustjóri skýrslu um þróun hatursglæpa á Íslandi. Þar segir að hatursglæpir séu: „Öll afbrot, einnig afbrot gegn einstaklingum eða munum, þar sem fórnarlambið, staðurinn eða aðilinn sem brotið er á, er valinn vegna raunverulegra eða mögulegra tengsla, sambands eða þátttöku í hópum [með ákveðin einkenni].“ Hvaða hópar? „Aðilar hóps geta haft ákveðin sameiginleg einkenni; eins og kynþáttur, þjóðerni- eða þjóðlegur uppruni, tungumál, litarháttur, trúarbrögð, kynferði, aldur, andleg eða líkamleg fötlun, kynhneigð eða önnur staða að öðru leyti.“

Og hvað er svona sérstakt við þessa glæpi? „Það sem greinir hatursglæpi frá öðrum hefðbundnum afbrotum eru afleiðingar þeirra. Hatursglæpir eru líklegri til að valda meiri tilfinningalegum og sálrænum skaða en aðrir hefðbundnir glæpir. Fórnarlömb hatursglæpa kunna að upplifa meiri kvíða, reiði, hræðslu, einangrun, öryggisleysi og þunglyndi. Hræðslan og kvíðinn sem hatursglæpir kalla fram ná lengra en til viðkomandi fórnarlambs.“

Þannig að næst þegar einhver lýsir því að hann hafi orðið fyrir hatursdrifinni árás og leitar viðurkenningar, skaltu hugsa þig tvisvar um áður en þú byrjar að tína til allar mögulegar og ómögulegar ástæður fyrir því að atvikið sé sko ekki hatursglæpur, heldur eitthvað allt annað.

Atli Þór Fanndal