„Hefurðu aldrei verið í göngunni?! Þá verðurðu að vera á palli. Fyrsta skiptið er ólýsanlegt,“ sagði vinur minn þegar ég aulaði því út úr mér að ég, 26 ára gömul lesbían, hefði aldrei tekið þátt í Gleðigöngunni. Við fórum að undirbúa þátttöku en þó að ég væri spennt var ég samt ekki alveg viss um hvað myndi verða svona ólýsanlegt.

Ég hafði þá aldrei velt í alvöru fyrir mér tilgangi og þýðingu Hinsegin daga. Auðvitað vissi ég að baráttugöngur væru mikilvægar og ég vissi líka að það væri mikið partí í kringum gönguna í Reykjavík, og ég var til í partí.

Laugardagurinn rann upp, hópurinn minn stillti sér upp, gangan mjakaðist af stað og meðfram endilangri gönguleiðinni var allt pakkað af fólki. Ég var glöð og spennt en fann að ég var í framandi aðstæðum. Ég hafði leikið í leikritum og tilfinningin var að vissu leyti svipuð: ég vissi að fólk var að horfa á mig og mér fannst ég þurfa að gera eitthvað. En það var ekkert handrit og enginn leikstjóri og í þetta skiptið var það ég sjálf, lesbían, sem fólkið var að horfa á. Hvernig kemur maður fram sem lesbía í Gleðigöngu? Því hafði ég aldrei velt fyrir mér.

Jú, maður getur reynt að syngja og dansa, sem eru alls ekki mínar sterku hliðar. Ég gat tyllt mér á pallinn á bílnum og þannig losnað undan dansstressinu. Veifa fána, brosa, hreyfa varirnar með tónlistinni, fylgjast með fólkinu, fíflast – jú, ég réði við það. Þetta var gaman en eftir sat samt þessi skrýtna tilfinning … það voru allir að horfa, en á hvað? Og af hverju?

Allt í einu heyrði ég að einhver kallaði nafnið mitt. Eftir smástund sá ég að köllin komu frá tveimur strákum sem stóðu og veifuðu skælbrosandi. Þetta voru bekkjarbræður mínir úr grunnskóla, kunningjar sem ég hafði ekki séð lengi. Allt í einu upplifði ég óútskýranlega gleði. Af hverju?

Alla mína grunn- og framhaldsskólagöngu var ég með varann á mér nálægt strákum. Ég lenti aldrei í stríðni, strákar gerðu stöku sinnum grín að mér en yfirleitt hunsuðu þeir mig. Þeir voru hvorki vinir mínir né skotnir í mér og ég túlkaði það sem svo að ég væri ljót og ómöguleg. Eftir á að hyggja hafa þeir sjálfsagt skynjað betur en ég að ég hafði engan „þannig“ áhuga á þeim og ég var í of mikilli vörn til að bjóða upp á vináttu. Þarna á Laugaveginum, löngu seinna, voru þessir tveir engu að síður mættir, fulltrúar fortíðarinnar, og mér fannst ég loksins vera samþykkt af þessum fortíðarheimi á mínum forsendum.

Þeir gerðu hvorki grín að mér né hunsuðu mig; þeir sáu mig og samglöddust mér af því að ég var að segja heiminum að ég væri lesbía og það væri bara drullufínt.

Fyrsta Gleðigangan mín var vissulega ólýsanleg en af öllu því sem gerðist stendur þetta stutta augnablik upp úr: þegar ég fann að sýnileikinn sem gangan skapar skiptir máli. Eitt af því sem ég held að sameini pride-göngur, hvort sem þær eru gleðigöngur eða blóðugar baráttugöngur, er þessi sýnileiki: að fá að sjást á sínum eigin hinsegin forsendum, dansandi, gangandi eða keyrandi, brosandi eða þungt hugsi, án handrits og leikstjóra.

Nafnlaus innsending