Ég man vel að þegar ég heyrði fyrst af hinsegin íþróttafélaginu Styrmi þótti mér hálf partinn skrýtið að hinsegin fólk skyldi stofna með sér íþróttafélög. Væri það ekki bara til þess að staðfesta einhverjar staðalmyndir um að „hommar kynnu ekkert í íþróttum“ og undirstrika enn fremur að hinsegin fólk væri minnihlutahópur sem þyrfti sérúrræði? Eftir að hafa heyrt í partíi í Skuggahverfinu að félagið væri með sunddeild í bígerð ákvað ég, með semingi þó, að mæta.

Með íþróttatöskuna hálf-fulla af fordómum gagnvart hinsegin íþróttum skakklappaðist ég niður í Laugardalslaug þar sem tók á móti mér brosmildur hópur homma sem fannst voða spennandi að fá loksins stelpu í hópinn. (Því miður hefur íþróttafélagið Styrmir alltaf verið mjög sís-karlamiðað). Þar sem ég hafði langmestu reynsluna af sundi og sundþjálfun tók ég fljótlega yfir þjálfunina og á skömmum tíma var hinsegin sundið orðið áhugamál númer eitt, tvö og þrjú.

Skyndilega rann upp fyrir mér ljós af hverju hinsegin íþróttir eru mikilvægar og hverju þær geta áorkað. Með Styrmi fannst mér loksins geta sameinað að vera hinsegin og íþróttakona.

Ekki það að þetta hafi myndað óásættanlega póla heldur hitt að þessir tveir veigamiklu þættir í lífi mínu höfðu aldrei almennilega fallið saman. Rétt eins og að setja ananas á pítsu fannst mér íþróttir og hinsegin tilvist einfaldlega ekki geta átt saman, þó bæði væru frábær, sitt í hvoru lagi. Enda hafa fjölmargir fræðimenn sýnt fram á að nútíma íþróttir byggist meira og minna á upphafningu gagnkynhneigðra gilda og viðmiða og því ekki að undra að hinsegin fólk upplifi sig oft utanveltu og óvelkomið. Í gegnum sundið fannst mér ég loksins takast að skapa lítinn heim í kringum braut númer 5 og 6 í Laugardalnum þar sem ég gat í fyrsta skipti upplifað að vera lesbía og íþróttakona á sama tíma í rými þar sem allir voru þver-öfugir og ekkert að fara í felur með það.

Sem þjálfari gat hafði ég líka tækifæri á því að nálgast íþróttina á svolítið óhefðbundinn hátt, og gera íþróttaiðkunina per se, tjah … örlítið meira hinsegin.

Stundum fannst mér strákarnir mínir vera heldur stífir í vatninu. Í stað þess að reyna að yfirvinna mótstöðuafl vatnsins með lipurð og fíntilfinningu áttu þeir til að böðlast áfram á vöðvaaflinu einu saman með bægslagangi og skvettum. Sérstaklega var þetta áberandi í baksundinu. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til að útlista hvernig ætti að bera sig að brá ég á það ráð að biðja þá einfaldlega að reyna að synda aðeins hommalegar í baksundinu. Við lögðum okkur fram við að reyna að synda aðeins hommalegar næstu vikurnar og smám saman fór lipurðin að skila sér. Augljóslega vakti þetta mikla kátínu og var efni í marga fimmaurabrandara sem eru best geymdir í heitapottinum. Einn liðsmannanna tók mig þó á eintal og sagði mér hversu vænt honum þætti um hommalega baksundið.

Hann var einn af mörgum hommum sem höfðu læðst meðfram veggjum í leikfimitímum í skólanum og aldrei þorað að gefa skipulagðri íþróttaiðkun sjéns af ótta við ofsafengin viðbrögð strákanna í hverfinu sem höfðu sýnt það og sannað með því að spara ekki orð eins og „hommi“, „faggi“ eða „kjelling“ sem skammaryrði yfir lélega frammistöðu á vellinum, að þar var lítið pláss fyrir það að vera hommi í hverfisfélaginu.

Fyrir honum var það ný uppgötvun að „hommaleg“ framganga í íþróttum væri ekki klaufaleg og til vansa, heldur væri hægt að hliðra orðanotkuninni svo að hommalegheit væru merki um tæknilega yfirburði og framför. Mér þótti afar vænt um þessi orð og hef reynt að gera þau að mínum í þeim íþróttum sem ég hef spreytt mig á, sem þjálfari, leiðbeinandi eða iðkandi og reynt að brýna fyrir sjálfum mér og öðrum að vera óhrædd við að gera hlutina svolítið hommalega, eða trukkast áfram þegar það á við, í annars heterómiðuðum heimi íþróttanna.

Hafdís Erla Hafsteinsdóttir