Sjónvarpsþættir sem innihalda hinsegin karaktera fanga alltaf athygli mína, eflaust af því að sýnileiki hinsegin fólks er ekki mikill, hvað þá sýnileiki sem byggist ekki bara á einhverjum þreyttum staðalmyndum. Ég gef þessum þáttum yfirleitt séns og ef þeir eru góðir festist ég alveg og horfi á þá alla. Það gerist þó allt of oft að ég yfirgef þættina pirruð og fúl því þessir hinsegin karakterar virðast með eindæmum „óheppnir“ þar sem þeir deyja í óeðlilega háu hlutfalli miðað við gagnkynhneigða sís karaktera.

Þetta gerðist nýlega þegar ég og konan mín settumst niður að horfa á pólitískan trylli. Lýsingin lofaði góðu, en strax á upphafsmínútum birtist trans kona (leikin af sís karli) og veðjuðum við báðar á að hún myndi ekki lifa fyrsta þáttinn af.

Við höfðum rétt fyrir okkur, en hún var ekki drepin fyrr en búið var að láta áhorfendur fylgjast með henni afklæðast gegn eigin vilja svo hægt væri að leita á henni. Atriðið var furðulegt og óþægilegt og virtist einungis vera skrifað inn í handritið til að svala forvitni fólks um hið „afbrigðilega“, en ekki fleyta sögunni áfram. Við yfirgáfum þættina eftir þetta.

Svipað gerðist í breskum þáttum um konu sem verður ástfangin af annarri konu. Eftir smá sambandsdrama, hómófóbíu móður hennar og svo barneign þeirra (eftir aðferðum sem gáfu til kynna að sæðisbankar væru ekki til staðar í Bretlandi) dó sú sem gekk með barnið, og um leið ein af fáum svörtum leikurum í þáttunum.

Hinir karakterarnir fundu ástina og héldu áfram, en konan stóð ein eftir með barnið þeirra eftir dauðsfall konu sinnar, nema auðvitað að sæðisgjafinn var nú kominn inn í myndina. Þá hætti ég að horfa.

Enn einn þátturinn sem ég horfði á fór svipaða leið. Þegar lesbíurnar voru við það að eignast barn, á tímum þegar slíkt var ekki viðurkennt, varð það fljótlega ljóst að sú ólétta myndi ekki lifa fæðinguna af. Hún dó, barnið var tekið af hinni mömmunni og í næsta þætti þar á eftir var eina atriðið með henni notað til þess að annar karakter gæti sagt frá eigin ástarsorg. Mér datt ekki annað í hug en að internetið myndi loga af reiði vegna þessa. Ég rakst þá á viðtal við handritshöfund þáttanna sem sagði þetta allt hluta af stærri mynd, sem myndi sýna lesbíuna sem eftir lifði sigrast á fordómum samfélagsins og verða að hetju.

Kannski er þetta þekkingarskortur handritshöfundar á lesbíum, en ég hefði auðveldlega getað gert þær báðar að hetjum, án þess að drepa aðra.

Það er auðvitað engin óheppni að hinsegin karakterar deyja í sjónvarpsþáttum, það er meðvituð ákvörðun. En ég velti fyrir mér hvort að framleiðendur þessara þátta átta sig ekki á háu hlutfalli hinsegin karaktera sem deyja í sjónvarpsþáttum. Sögurnar þeirra verða að klisjum sem endurtaka sig í sífellu og eru löngu orðnar þreyttar. Þetta er það algengt að ég er orðin vön þessu. Og það tekur ekki langan tíma fyrir mig að spotta þegar hinsegin karakter mun ekki lifa þáttinn af. Og á þeim tímapunkti slekk ég oftast á sjónvarpinu.

Nafnlaus innsending