Hugtakið trans hefur lengi verið hluti af mér og minni sjálfsmynd. Ætli ég hafi ekki fyrst heyrt um að vera trans þegar ég var unglingur, en þá var úrelta hugtakið kynskiptingur notað eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þrátt fyrir að ég vissi ekki alveg hvers vegna mér fannst það hugtak mjög takmarkandi, þá fann ég tengingu við upplifun þeirra sem notuðu hugtakið til að lýsa sinni reynslu. Hægt og rólega breyttist orðalag og á þeim tíma sem ég kem fyrst út úr skápnum hafa hugtökin trans, trans konur og trans karlar náð meiri fótfestu. Þrátt fyrir að mér fyndist hugtakið trans kona ekki eiga alveg við mig þá var það hugtakið sem komst næst því að lýsa minni upplifun. Ég var jú ekki karl og af tvennu illu virtist trans kona vera það sem passaði mér—enda ekki annað í boði heldur en að vera karl eða kona.

Ég spilaði því með. Ef ég ætlaði mér að komast í gegnum einhverskonar ferli innan heilbrigðiskerfisins og mér ætti að vera tekið alvarlega þá áttaði ég mig fljótt á því að ég þyrfti að sanna og sýna að ég væri sko alvöru kona.

Þetta fól í sér allskyns hluti; svo sem að klæða mig á ákveðinn hátt, hegða mér á ákveðinn hátt, gefa upp á bátinn „strákaleg“ áhugamál og síðast en ekki síst tileinka mér göngulag kvenna. Allar þessar kröfur komu að mestu frá heilbrigðiskerfinu og samfélaginu en einnig frá öðru trans fólki. Mér var tjáð að þetta væru þeir hlutir sem ég þyrfti að gera ef ég ætlaði að vera kona. Lengi vel fór ég eftir þessum reglum og mitt ferli innan heilbrigðiskerfisins var frekar auðvelt og gekk ég greitt í gegnum það.

En mín upplifun á minni kynvitund hefur alltaf verið á annan veg og hef ég aldrei upplifað mig sem konu né karl. Mín kynvitund fellur utan þessa tvíhyggjukerfis og upplifi ég mig sem kynsegin. Það snýst ekki endilega um skort á því að upplifa mig sem karl eða konu og er heldur ekki endilega hægt að lýsa því sem að vera á milli þess að vera karl eða kona; allavega ekki í mínu tilfelli. Fyrir mér er kynsegin kynvitund sem stendur ein og sér, algjörlega utan þessa kerfis.

Þrátt fyrir að ég tjái kyn mitt að mestu á kvenlægan hátt þá gerir það mig ekkert minna kynsegin. Kynsegin fólk er allskonar, alveg eins og annað fólk, og það að ég hafi undirgengist ferli innan heilbrigðiskerfisins var mér lífsnauðsynlegt til að geta liðið vel í eigin skinni.

Mér finnst ég þurfa í sífellu að réttlæta mína eigin kynvitund, bæði innan sem utan trans samfélagsins. Fólk dregur mína kynvitund sífellt í efa, ég fæ dagsdaglega haturs komment á samfélagsmiðlum og hef þurft að sitja undir fáranlegum spurningum og staðhæfingum um mig og mína kynvitund.
En mín kynvitund breytist ekkert þrátt fyrir að fólk dragi hana í efa. Ég er kynsegin og ég er ekki minna né meira trans en aðrar trans manneskjur. Ég er kynsegin og ég er ekki að fara neitt.

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir