Líkamsfita mín kynjar mig. Það tók mig langan tíma að átta mig á því að kyn mitt er á skjön við það kyn sem aðrir tileinka mér. Kannski sérstaklega af því að ég er með töluvert af líkamsfitu og líkami minn kynjar mig á áberandi hátt. Líkami sem er talsvert undir meðalhæð, stórar mjaðmir, brjóst sem verða ekki svo auðveldlega falin … Líkami minn hefur kyneinkenni konu.

Mér líður samt ekkert alltaf eins og konu, en öllum öðrum virðist líða eins og ég sé kona og koma fram við mig eins og konu. Er ég þá kona?

Ef ég legg mig fram um að klæða mig og hegða mér kvenlega mæti ég mun jákvæðara viðmóti frá öðrum heldur en ef ég brýt kynjanormin. Er ég þá kona? Mér finnst það ekki alltaf vera svo, en líkaminn virðist gefa það svo sterklega til kynna. Mér hefur enn ekki tekist að finna leið til að gefa það til kynna með klæðaburði eða fasi að ég sé ekki kona, að ég falli utan kynjaflokka.

Líkami minn kynjar mig meira en ég kæri mig um og ef ég brýt normin, ef ég klæði mig eða haga mér á einhvern hátt sem ekki telst til kvenleika, finnst mér eins og samfélagið sé dálítið fjandsamlegra.

Það er ekki endilega alltaf mjög áberandi fjandsamleiki, en viðmót fólks er svo sannarlega stífara og óvinsamlegra og mín reynsla er að þetta haldist í hendur við líkamsfitu. Það var auðveldara og meira rými fyrir mig að tjá kyn mitt á óhefðbundinn hátt þegar ég var með grennri vöxt. Þess vegna verður það að einhverju leyti auðveldara að gefa eftir og haga sér eins og samfélagið ætlast til af mér, en á sama tíma er það rosalega þreytandi. Mér finnst í raun hluta af sjálfi mínu vera haldið frá mér þegar samfélagið getur ekki tekið mér eins og ég vil vera, stundum kona, stundum eitthvað annað og óljósara.

Nafnlaus innsending