Ég var 17 ára þegar ég áttaði mig á því, eiginlega fyrir tilviljun, að ég væri ekki gagnkynhneigð. Gagnkynhneigð var svo alltumlykjandi að ég áttaði mig ekki á því að eitthvað annað væri í boði. Sérstaklega ekki þar sem ég laðaðist áreynslulaust að fólki af öðru kyni.

Þegar forvitni mín og áhugi á fólki af sama kyni varð mér ljós sagði ég mínum nánustu vinum næstum strax að ég væri tvíkynhneigð og fann ekki fyrir neinni skömm eða vandræðalegheitum. En fljótlega varð mér ljóst að ef fólk sæi mig aðeins í nánum samböndum með aðilum af öðru kyni myndi það halda áfram að draga þá ályktun að ég væri gagnkynhneigð, jafnvel þó ég tæki margsinnis fram að ég væri það ekki.

Í hugum fólks var ég gagnkynhneigð þar til ég var búin að sýna fram á eitthvað annað. Þetta háði mér í þónokkur ár. Ég var í föstu sambandi en þráði að kynnast fólki sem deildi sams konar tilfinningum og líðan og ég.

Ég lét mig dreyma um þátttöku í hinsegin félagslífi, ef makinn myndi fara í nám til útlanda. Þetta voru fjarstæðukenndir og fjarlægir dagdraumar, ég þorði ekki að leita eftir slíkum félagsskap því mér fannst ég ekki tilheyra hópnum á meðan ég var í sambandi sem flestir myndu skilja sem gagnkynhneigt. Þegar sambandinu lauk sótti ég mjög fljótlega í félagsskap hinsegin fólks. Ég stökk nánast beint í djúpu laugina og hellti mér í þátttöku í félagsstarfi. Veruleiki minn umturnaðist á nokkrum mánuðum og sjálfsskilningurinn fylgdi með.

Mjög fljótlega varð mér ljóst að sam- og tvíkynhneigð voru hugtök sem lýstu bara toppinum á stórum ísjaka hinsegin hugtaka. Ég hætti að nota hugtakið tvíkynhneigð til að lýsa mér og fór að nota pankynhneigð í staðinn. Það var frelsandi að hafa orð sem náði yfir tilfinningar mínar.

Hugtak er bara orð, en mér hefur alltaf þótt merking orðanna skipta máli þegar ég nota þau um sjálfa mig. Með rétta hugtakið gat ég leitað uppi alls konar efni á netinu sem var ekki einskorðað við reynsluheim samkynhneigðra, því fram að þessu var það eina efnið sem ég hafði aðgang að. Nú gat ég fundið skrif alls konar fólks alls staðar að í heiminum sem leið eins og mér og það var svo sannarlega fullt fullt af fólki. Vá! Þó að hugtakið pankynhneigð sé bara orð og ekki nálægt því að vera fullkomið eða ná algerlega utan um tilfinningar mínar þá er mér ómetanlega mikilvægt að hafa orð sem kemst að minnsta kosti ágætlega nálægt því að lýsa því í grófum dráttum hver ég er.

Nafnlaus innsending