Fyrsta skiptið sem ég steig inn í Samtökin ’78 var árið 1995. Þá var ég dauðfeimin 15 ára stúlka sem var dregin inn af vinkonu sinni. Barkonan spurði mig fyrir framan þessa vinkonu mína, sem ég var helskotin í, af hverju ég héldi nú að ég væri lesbía. Ekki ætlaði ég að fara að svara því! Fyrir framan hana? Ó nei.

Sem betur fer þorði ég aftur í litla gula húsið á Lindargötu, og faldi mig eiginlega í bókunum sem voru í bókasafni S78. Roðnaði öll þegar hinar lesbíurnar yrtu á mig og var eiginlega óttalegur sauður. En þarna mátti ég sauður vera, og í öruggu rými. Og mátti barasta vera til.

Það var ósköp lítið sem ég vissi um hinsegin samfélag þegar ég var þetta ung. En það gaf mér svo mikið að sjá að þarna var líf, fólk og gleði.

Að sjá það með eigin augum að sorgarviðbrögð móður minnar við opinberun kynhneigðar minnar ættu sér ekki rökfestu. Í dag borga ég mín félagsgjöld til þess að þeir ungu hýrlingar sem þurfa að eiga sér samastað geti snúið sér eitthvert, ef þau vantar stað til að vera til. Takk Samtökin ’78.

Guðrún Mobus Bernharðs