Þegar ég segist vera að fara á aðalfund Samtakanna ’78 eða að skreyta Gleðigönguvagninn sem ég er að skipuleggja hváir sumt fólk, miskurteislega og ég sé að það er að fara yfir í huganum hvort því hafi yfirsést eitthvað. Hvort að það hafi misst af því þegar ég kom út úr skápnum, með glimmersprengju eins og mér einni væri líkt.  Fólk er nefnilega gjarnt á að setja á fólk merkimiða; hinsegin eða „venjuleg“.  Umræðan um kosti og galla merkimiða er önnur og stærri, sem ég ætla ekki að fara út í hérna, en sannleikurinn er að fólki yfirsást lítið.  

Þó ég teljist seint vera venjuleg, þá flokka ég mig sjálfa ekki sérlega hinsegin. Jú, jú, ég hef átt eina kvöldstund í bóli með konu og hrífst af alls konar fólki og eyði síðkvöldum í að glápa á RuPaul’s Drag Race, en þegar öllu er á botninn hvolft er ég sískynja, heterórómantísk, krullhærð, hvít kona.  

En ég mæti samt á aðalfund Samtakanna og skipulegg skátavagna fyrir gleðigöngu því mér er málstaðurinn einfaldlega mjög hugleikinn. Rétt eins og ég þarf ekki að vera argentískur fangi til að vera meðlimur í Amnesty International er ég meðlimur í Samtökunum ’78 og berst af alefli fyrir betri heimi hinsegin fólki til handa. Það er hluti af réttlætiskennd minni og samkennd með einstaklingnum að vilja laga þá potta sem brotnir eru í þessum málaflokkum á sviði íslenskra stjórnmála, heilbrigðiskerfis og viðhorfa, svo ekki sé minnst á þau hræðilegu mannréttindabrot sem eiga sér stað á alþjóðavísu.

Að taka þátt í baráttu hinsegin fólks fyrir samfélagi þar sem við fáum öll að vera við sjálf hefur kennt mér ótalmargt. Ég hef þurft að skoða eigin málnotkun, takast á við eigin fordóma og útvíkka hugann á ýmsan máta.  Stundum er það erfitt.  

Það er sárt að takast á við eigin fordóma, það getur verið flókið að snúa íslenskri málfræði þannig að orðalagið verði hlutlaust og það getur stundum verið átakanlegt að sætta sig við að þurfa að bakka í skoðanaskiptum þegar ég finn sjálf að ég er orðin sek um um einhverjar silkiklútskýringar frá sjónarhorni sís-heteró-hvítu-forréttindamanneskjunnar sem ég á endanum er. En öðru fremur er það gefandi, stundum þreytandi, en alltaf mannbætandi að fá að taka þátt í hinseginheiminum, alveg óháð kynvitund, kyntjáningu og kynhneigð. Saman getum við breytt heiminum.

Inga Auðbjörg K. Straumland