„Kynhneigðin mín er jafn róttæk og hún er óspennandi“
Þegar ég heyrði hugtakið tvíkynhneigð fyrst sem barn varð ég þess strax áskynja að það væri ekki eftirsóknarvert að vera svoleiðis. Að vera hommi var vont en tvíkynhneigður var verra; eiginlega ekki til í alvörunni. Hommarnir og lesbíurnar sem voru hötuð af öðrum fyrirlitu diet-homma. Gráðuga pakkið sem getur ekki bara ákveðið sig. Lauslátir HIV smitberar sem enginn er óhultur fyrir. Skápahommar í afneitun.
Tvíkynhneigð var kúgandi og frelsandi hugtak fyrir mig. Árum saman var ég staðráðinn í að þetta væri eitthvað sem ég ætlaði mér ekki að vera. 11 ára sagði ég fyrst frá því að ég væri hommi. Það var hörmulegt. Ég var ekki undir það búinn. Mín viðbrögð var að fara djúpt inn í skápinn. Árum saman …
Ég var skotinn í stelpum! Þessi strákaskot voru bara eitthvað rugl. Allir ganga í gegnum þetta en enginn talar um það. Ég hélt áfram að vera skotinn í stelpum en sama hvað ég reyndi þá hætti ég ekki að falla fyrir strákum. Ekki einu sinni þótt ég tæki hinseginfælnistímabil. Hataði sjálfan mig og hataði aðra. Ekkert virkaði!?!
Að þessu leyti var hugtakið kúgandi þegar ég var að alast upp. Tvíkynhneigðir voru á þeim tíma ekki bara hataðir af forpokuðu og fordómafullu gagnkynhneigðu fólki. Hommarnir og lessurnar hötuðu okkur. Þar var engan grið að finna. Ég hataði þau á móti. Hommi ætlaði ég aldrei að vera. Kannski karl sem sefur hjá karlmönnum í kyrrþey en bara ef ég gæti ekki bælt þessa vitleysu. Gagnkynhneigður skyldi ég vera.
Frelsandi var hugtakið vegna þess að það gaf mér orð til að lýsa hver ég er. Afneitun virkar kannski til skamms tíma en til lengri tíma þýðir lítið að afneita sjálfum sér.
Í dag myndi ég mögulega nota annað hugtak til að lýsa mér. Pankynhneigð er kannski betra hugtak og ég skil vel þá sem það nota. Tvíkynhneigður er þó það sem ég lærði að kalla mig stoltur þegar ég loksins sættist við sjálfan mig. Það hefur persónulega og sögulega meiningu fyrir mig og marga aðra á svipuðum tíma.
Í baráttunni fyrir olnbogarými var hugtakið nauðsynlegt. Pólitískt var sömuleiðis mikilvægt að taka sér hugtakið og bera það stoltur enda snyrtilega útgáfan af tungutaki þeirra sem afneituðu tilvist okkar. Tvíkynhneigð var opinbera hugtakið og notað á síðum blaðanna, í spjallþáttum og í opinberri umræðu til að svipta okkur hinu mannlega, tala niður tilvistarrétt okkar og með snyrtilegum hætti útiloka okkur úr sögunni. Diet-hommi var kjallarahugtak, notað við eldhúsborðið, kastað fram af fyrirlitningu eða hvíslað. Hvarf sjálfkrafa um leið og við hættum að skammast okkar fyrir okkur sjálf.
Þvílíkt frelsi að geta sagt sem rétt er: Ég er tvíkynhneigður. Ég er ekki gagnkynhneigður í prósentuhlutfalli við samkynhneigð. Ég er ekki meira fyrir eitt kynið en annað. Ég vil ekki sofa hjá öllum né vera í sambandi með öllum.
Kynhneigðin mín er jafn róttæk og hún er óspennandi. Sakna ég þess að vera með körlum þegar ég er með konum og öfugt? Já stundum geri ég það satt að segja. Saknar fólk í samböndum þess að vera með öðrum? Stundum já, sumir já.
Ég er tvíkynhneigður karlmaður. Felli hug til fólks. Það tók mig langan tíma að sættast á það en mikið er frelsandi að geta sagt það.