Aðskilnaðarstefna sem andóf gegn mismunun
Hinsegin fólk hefur allt frá upphafi réttindabaráttunnar rætt um að stofna sérstök hinsegin samfélög eða þjóðir og einangra sig þar með frá því umhverfi sem undirokar það. Til dæmis voru samtökin Gay Homeland Foundation stofnuð í Köln í Þýskalandi árið 2005 en þau hafa það að markmiði að stofna athvarf fyrir hinsegin fólk, jafnvel með því að koma á fót sérstöku ríki. Árið 1970 áformuðu aðgerðasinnar innan samtakanna Gay Liberation Front í Los Angeles að stofna sérstakt samfélag, sem var óformlega nefnt Stonewall Nation, í Alpine-sýslu í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Þannig vildu þeir stofna athvarf fyrir samkynhneigt fólk fjarri því samfélagi sem undirokaði það. Þá bjuggu aðeins 384 kosningabærir einstaklingar í sýslunni og því sáu forsvarsmenn samtakanna fram á að þeir gætu yfirtekið sveitarstjórnina með því að hvetja samkynhneigt fólk til að setjast þar að.
Ráðþrota embættismenn
Samkvæmt frétt sem birtist í Park City Daily News 16. október 1970 höfðu þá 497 samkynhneigðir einstaklingar skráð sig á lista yfir fólk sem vildi flytjast til Alpine-sýslu. Þeir myndu bíða í þá 90 daga sem þurfti til að öðlast kjörgengi, krefjast síðan nýrra kosninga og kjósa sína fulltrúa í stað sitjandi sveitarstjórnar. Embættismenn stóðu ráðþrota frammi fyrir þessum áformum og leituðu því til Richards Turner, aðstoðarmanns Ronalds Reagan forseta, eftir aðstoð til að koma í veg fyrir „innrásina“. Þessi áform Los Angeles-deildar Gay Liberation Front voru þó umdeild innan samtakanna sjálfra og sem dæmi má nefna að Berkeley-deildin var andvíg þeim. Flutningar voru áætlaðir 1. janúar 1971 en ekkert varð af þeim. Lögreglustjórinn í Alpine-sýslu, Stuart Merrill, rakti það til kólnandi veðurfars en einnig hefur verið látið að því liggja að yfirtakan hafi verið gabb sem hafi fyrst og fremst verið ætlað að vekja athygli á Gay Liberation Front.
Separatism eða separatist movements