Hinsegin þjóðernishyggja

Hugtakið hinsegin þjóðernishyggja lýsir ferli þar sem sumt hinsegin fólk, aðallega í vestrænum ríkjum, fær samþykki og treystir félagslega stöðu sína í gegnum neysluhyggju, efnahagslegan hreyfanleika og nýfengin einstaklingsréttindi, svo sem hjónabönd samkynhneigðra. Sumt hinsegin fólk fær því aðgang að ríki, þjóð og ráðandi samfélagshópum með því að að sækjast eftir einstaklingsréttindum (rétti til að gera eitthvað, til dæmis að giftast) frekar en hópréttindum (til dæmis vernd gegn mismunun) og með því að sækjast eftir innlimun í ríkið í stað þess að kynda undir andstöðu gegn því.

Breitt yfir misrétti og mannréttindabrot

Þannig kemur þessi aðferð, að krefjast innlimunar í ríkið með lagalegum einstaklingsréttindum, í veg fyrir alla baráttu gegn viðteknum venjum, hugmyndum og valdakerfum. Hún lætur líta út fyrir að jafnrétti hafi verið náð og gefur ríkinu tækifæri til að varpa fram þeirri ímynd að það sé á hærra siðferðislegu, menningarlegu og pólitísku stigi en önnur ríki, sérstaklega í Miðausturlöndum. Aðferðin breiðir jafnframt yfir misrétti og mannréttindabrot sem framin eru innan ríkisins eða í nafni þess. Jafnframt gerir það lítið úr þeirri hinsegin baráttu sem á sér stað utan Vesturlanda sem getur verið öflug þótt ríkisvaldið sé ef til vill kúgandi og ógnandi. Þess konar orðræða hefur áhrif, meðal annars á hinsegin fólk og viðhorf þess gagnvart innflytjendum. Til að mynda hafa samtök lesbía og homma í Þýskalandi gefið út yfirlýsingu þess efnis að innflytjendur sem aðhyllast íslam séu helstu óvinir samkynhneigðra.

Ferli hinsegin þjóðernishyggju

1. Ríkjandi hugmyndafræði undirstrikar að það sé æskilegt að hinsegin fólk sækist eftir að verða hluti af ríki og þjóð í gegnum einstaklingsréttindi eins og hjónaband fólks af sama kyni. Baráttan fyrir einstaklingsréttindum kemur í staðinn fyrir baráttu fyrir sameiginlegum réttindum, sameiginlega andstöðu gegn ríkjandi viðmiðum og breytingar á ríkjandi valdakerfum sem gera hinsegin fólk undirskipað.

2. Krafan um að hinsegin fólk verði innlimað í ríki og þjóð byggist á því að hinsegin fólki sé skipt í tvo hópa, gott og slæmt hinsegin fólk, eða samkynhneigða og frekjusamkynhneigða eins og heyrst hefur á Íslandi. Því er haldið fram að góða hinsegin fólkið sé ekkert öðruvísi en meðlimir meirihlutasamfélagsins og það verðskuldi viðurkenningu sem hluti af norminu. Vonda hinsegin fólkið er hins vegar hættulegt samfélaginu eða afætur á ríkisspena. Þar er meðal annars átt við hinsegin róttæklinga, hinsegin fólk sem hefur annan húðlit en hvítan, HIV-jákvætt fólk, fátækt og heimilislaust hinsegin fólk, fólk sem neytir ólöglegra vímuefna, óskráða innflytjendur og fleiri.

3. Þegar búið er að bjóða góða hinsegin fólkið velkomið inn í ríkið geta þessar stofnanir notað það sem vitnisburð um að jafnrétti hafi verið náð og þaggað niður í þeim áhyggjuröddum sem benda á réttindaleysi þeirra sem enn eru jaðarsett og undirokuð. Innlimun hinsegin fólks er síðan notuð af ríkinu sem áróðurstæki til að sýna fram á hversu siðmenntuð, nútímaleg, frjálslynd og lýðræðisleg Vesturlönd eru, sérstaklega í samanburði við meint afturhaldssöm, fornaldarleg og ólýðræðisleg ríki (til dæmis Miðausturlönd). Þetta er aðferð sem má rekja til nýlendutímans og lesa nánar um í bók Edwards Saids, Orientalism, sem fjallar um hvernig Vesturlönd framleiða þekkingu sem styrkir yfirráð þeirra yfir „Austurlöndum“ í sessi í gegnum fræði, menningu og orðræðu. [1]