Hvað er styðjandi?

Styðjandi er manneskja sem tilheyrir ekki jaðarsettum hópi en styður baráttu hans og leggur sig fram um að þekkja baráttumálin. Að vera styðjandi snýst um að taka ábyrgð á forréttindum sínum í sínu daglega lífi og haga því á þann hátt að ekki sé ýtt undir jaðarsetningu þeirra sem ekki hafa þessi forréttindi.

Til eru fjölmargir listar yfir hvað fólk sem vill styðja við baráttu jaðarsettra hópa getur gert í sínu daglega lífi. Nokkur atriði eru sameiginleg með þeim flestum og eru þau rakin hér að neðan.

Fólk sem tekur þátt í styðjandi vinnu:

  1. Leggur sig fram um að þekkja birtingarmyndir jaðarsetningar og fordóma gegn hópnum. Ber virðingu fyrir rýmum og umræðum innan jaðarsetta hópsins er varða jarðarstöðu hans. Leggur við hlustir þegar fólk innan hópsins lýsir reynslu sinni.
  2. Leggur sig fram um að þekkja birtingarmyndir þeirra forréttinda sem það nýtur sem manneskja sem tilheyrir valdahóp (til dæmis hvít, gagnkynhneigð, karlkyns o.s.frv., eftir samhenginu hverju sinni) og gengst við því að þessir þættir hafi gefið því mikilvægt forskot í lífinu.
  3. Ræðir opinskátt um forréttindi sín. Til dæmis: „sem hvít manneskja er ólíklegt að ég skilji til fulls rasisma á Íslandi“ eða „sem gagnkynhneigð manneskja er auðvelt fyrir mig að kyssa kærustuna mína á almannafæri“.
  4. Tekur málstað jaðarsettrar manneskju/hóps þegar það verður vart við fordóma, niðrandi umræðu eða óviðeigandi framkomu (til dæmis hundsun), hvort sem er opinberlega eða í einkalífinu, líka þegar það er óþægilegt eða þýðir að viðkomandi þurfi að andmæla vinum, yfirmönnum, ráðamönnum eða fjölskyldumeðlimum.

Núningur milli jaðarsettra hópa og styðjenda

Fjölmörg dæmi eru um núning á milli jaðarsettra hópa og fólks sem ekki tilheyrir þeim en telur sig vera styðjanda. Fólk í forréttindastöðu nýtur óhjákvæmilega forréttinda, til dæmis hvað varðar fjölmiðlaaðgengi, trúverðugleika og athygli samborgaranna. Þess vegna er mikilvægt að fólk sem vill vera styðjandi átti sig á þessum forréttindum og sé meðvitað um að halda sig til hlés þegar það á við. Ágætis þumalputtaregla er:

  • Ef einhver úr jaðarsetta hópnum er að lýsa reynslu sinni af kúgun, fordómum eða jaðarsetningu: Hlustaðu án þess að reyna að gera lítið úr málinu, efast um sannleika þess eða túlkun viðkomandi á aðstæðum og án þess að þagga málið niður.
  • Ef einhver sem nýtur sömu eða svipaðra forréttinda og þú er með fordóma, eykur á jaðarsetningu eða notar meiðandi orðræðu: Talaðu og taktu afstöðu með jaðarsetta hópnum. Líka þó að viðkomandi hafi sagt eða gert (eða ekki gert) það sem þú tókst eftir óviljandi eða „af góðum hug“.

Gagnrýni á hugtakið styðjandi

Ýmsir hafa gagnrýnt titilinn styðjandi. Bent hefur verið á að það vera styðjandi sé ekki staða sem hægt sé að taka sér í eitt skipti fyrir öll heldur þýði það þátttöku í síkviku ferli sjálfsskoðunar og lærdóms. Margir hafa bent á að það að nota orðið styðjandi sem nafnorð bendi til stöðnunar í því ferli sem það að styðja við jaðarsetta hópa er. Betra sé að fólk sem leggur sig fram við að styðja baráttu jaðarsettra hópa lýsi því sem ferli („ég styð baráttu hópsins til dæmis með því að …“) fremur en að segjast einfaldlega vera styðjandi eða stuðningsaðili. Þar fyrir utan ætti orðið styðjandi ekki að vera titill sem manneskja sem stendur fyrir utan jaðarsetta hópinn getur sjálf tekið sér. Skilgreiningarvaldið á því hvort manneskjan er raunverulega styðjandi í orðum og gjörðum þarf að liggja hjá fólki sem tilheyrir jaðarsetta hópnum.


En á ensku?

Ally


Orð um orð

Ally hefur einnig verið þýtt sem bandamaður eða stuðningsaðili en hér er gerð tilraun með þýðinguna styðjandi til að fanga það að hér er átt við ferli fremur en titil.