Samkynja hjónaband
Ýmsar sögulegar heimildir eru til um hjónaband einstaklinga af sama kyni í gegnum tíðina. Til að mynda sýna tvö dæmi frá Afríku á 19. öld að slík hjónabönd voru samþykkt innan ólíkra samfélaga þar. We’wha var samfélagsleiðtogi Zuni-þjóðarinnar. Hann var einnig það sem kallað var berdache, karl sem klæðist fötum sem konur klæðast venjulega, og var giftur karli. Ifeyinwa Olinke bjó einnig yfir miklu ríkidæmi og völdum innan Igbo-þjóðarinnar, sem var búsett þar sem Nígería er nú, og hún var gift bæði körlum og konum.
Áhrif kristni
Ef við lítum til Evrópu þá voru viðhorf til sambanda tveggja einstaklinga af sama kyni, þó aðallega karla, talsvert jákvæðari í Grikklandi og Róm til forna en síðar varð og dæmi eru um að eins konar hjónabönd milli tveggja karla hafi verið viðurkennd. Viðurkenningin grundvallaðist þó á því að ákveðum skilyrðum væri fullnægt, t.d. varðandi valdamun innan sambandsins, og því má ekki leggja þau að jöfnu við samkynja hjónabönd í dag.
Kristin trú átti stóran þátt í að breyta þessum viðhorfum í Evrópu og árið 342 voru lögleiddar refsingar við því að giftast manneskju af sama kyni. Ríki og kirkja einokuðu hjónabandið en 1700 árum eftir lagasetninguna voru þessar stofnanir enn mjög neikvæðar gagnvart samkynja samböndum. Í sumum löndum eru þær það enn. Raunar höfðu þær horn í síðu flestra þeirra sem hegðuðu sér á skjön við ríkjandi fjölskyldugildi og kynjatvíhyggju sem kváðu á um að einn karl og ein kona mynduðu hið fullkomna par þar sem kvenleiki konunnar vægi upp á móti karlmennsku karlsins. Þau ættu því ein að fjölga sér og því mætti hjónaband aðeins vera á milli karls og konu. Samkynhneigð, klæðskipti, fjölástasambönd og fleira var aftur á móti úthrópað og refsivert. Ríki og kirkja áttu því stóran þátt í þeirri jaðarsetningu sem hinsegin fólk varð fyrir og birtist í réttindaleysi, refsingum og jafnvel ofsóknum.
Ástin og hjónabandið
Aðgangur að hjónabandi var því skiljanlega ekki efst á dagskrá hinsegin fólks þegar það hóf réttindabaráttu sína á sjötta og sjöunda áratungum. Raunar gekk það í lið með femínistum og öðru baráttufólki fyrir kynfrelsi þegar það reyndi að reka fleyg á milli kynverundar annars vegar og gagnkynhneigðar, hjónabands og barneigna hins vegar. Femínistar höfðu þá þegar unnið mikilvæga vinnu við að lögleiða getnaðarvarnir, auðvelda skilnað og fleira sem dró úr mikilvægi hjónabandsins í daglegu lífi fólks. Á sjötta og sjöunda áratugnum fóru róttæklingar í ríkari mæli að líta á hjónabandið sem stofnun sem veitti aðgang að réttindum og bótum fremur en að setja það í samhengi við rómantík, ást og umhyggju.
Einstaklingsréttindi eða hópréttindi?
Þannig leit út fyrir að grafið yrði allverulega undan hjónabandsstofnuninni. Raunin varð þó, eins og við nú vitum, allt önnur og hjónabandinu hefur á síðustu tveimur áratugum verið stillt upp sem lokatakmarki í baráttu samkynhneigðra fyrir réttindum. Það eru ýmsar ástæður fyrir þessum viðsnúningi. Sem dæmi má nefna þátttöku fólks á hægri væng stjórnmálanna í réttindabaráttu hinsegin fólks, uppgang nýfrjálshyggju á níunda og tíunda áratug 20. aldar, sem hafði þau áhrif á baráttuna að hún fór að snúast um einstaklingsréttindi frekar en hópréttindi og að brjóta niður kúgandi kerfi, og þá staðreynd að í Bandaríkjunum veitir hjónabandið aðgang að mjög umfangsmiklum réttindum, ólíkt því sem gerist á Íslandi, og getur því haft gríðarmikið að segja um lífsgæði fólks. Við þetta bætist að það er miklu auðveldara að ganga inn í ríkjandi stofnanir og viðmið en að brjóta þau niður og byggja upp ný.
Stofnunum sköpuð ný ímynd
Hvernig sem á því stóð fékk hjónabandið á sig nýja ásýnd í augum hinsegin fólks á níunda áratug 20. aldar; það var álitið aðgangur að virðingu og samfélagslegu samþykki en ekki tæki til kúgunar og útskúfunar. Það er þó ekkert einsdæmi að stofnunum sem eru litnar hornauga, til dæmis vegna kvenfyrirlitningar, gagnkynhneigðarhyggju og rasisma, sé sköpuð ný ímynd sem felur í sér að viðkomandi stofnun sé lykill hins útilokaða hóps að samfélagi, virðingu og samþykki. Það sama hefur gerst með bandaríska herinn en samkynhneigt fólk hefur barist fyrir því að fá að gegna herþjónustu í staðinn fyrir að snúast gegn stofnuninni og því ofbeldi og eyðileggingu sem hún stendur fyrir.
Þannig varð hjónabandið eitt helsta markmið stórra, íhaldssamra hinsegin samtaka í Bandaríkjunum, til dæmis Human Rights Campaign. Þar í landi hafa náðst stórir áfangar í baráttunni fyrir hjónabandi tveggja einstaklinga af sama kyni, sérstaklega árið 2013 þegar Hæstiréttur úrskurðaði að tvenn lög sem bönnuðu hjónabönd tveggja einstaklinga af sama kyni, Proposition 8 (Prop 8) og Defense of Marrage Act (DOMA), stæðust ekki stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Íhaldssamur undirtónn?
Þó hafa einnig heyrst háværar raddir sem draga í efa að baráttan hafi verið þess virði þar sem herferðin hafi haft mjög íhaldssaman undirtón sem leggi áherslu á að samkynhneigt fólk samlagist samfélaginu í stað þess að ýta undir fjölbreytileika. Svart hinsegin fólk í Bandaríkjunum, sem og þau sem tilheyra þjóðum indíána þar í landi, áttu einnig erfitt með að líta á afnám DOMA sem sigur því samtímis voru afnumdir tveir lagabálkar sem annars vegar tryggðu réttindi svartra Bandaríkjamanna til að kjósa og hins vegar hindruðu að börn frá indíánaþjóðum væru ættleidd til fólks utan sinna samfélaga. Aftur á móti hafði rétturinn til að ganga í hjónaband aðallega verið baráttumál hvítra samkynhneigðra einstaklinga úr millistétt.
Hér á Íslandi átti svipuð þróun sér stað varðandi viðhorf til hjónabandsins en það varð einhvern tímann á tíunda áratug síðustu aldar langstærsta baráttumál samkynhneigðra og hefur haft mikil áhrif á réttindabaráttu hinsegin fólks. Þetta er vafalaust angi af alþjóðlegri þróun og til komið vegna áhrifa frá nágrannalöndunum og Bandaríkjunum. Það er þó að einhverju leyti á huldu hvers vegna samkynhneigðir á Íslandi fetuðu sömu leið, sérstaklega í ljósi þess að hjónabandið hefur aldrei verið eins mikilvægur lykill að réttindum hér og í Bandaríkjunum. Því mætti spyrja hvers vegna samkynhneigðir á Íslandi kusu að berjast fyrir því að fá að ganga í hjónaband í stað þess að berjast fyrir því að klippt yrði á böndin milli hjónabandsins og þeirra takmörkuðu réttinda sem það veitir umfram skráða sambúð.
Tillaga 8 – proposition 8
Í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum geta einstaklingar og samtök lagt fram tillögur að lögum og reglum sem almenningur síðan kýs um. Þann 4. nóvember 2008 gengu kjósendur í ríkinu að kjörborðinu, meðal annars til að ákveða örlög tillögu sem kvað á um breytingar á stjórnarskrá Kaliforníuríkis þess eðlis að hjónaband væri aðeins milli karls og konu. Tveir einstaklingar af sama kyni gætu því ekki talist hjón. Tillaga þessi hét Tillaga 8 eða Proposition 8 og var ein tilraun af mörgum til að ná fram þessari skilgreiningu á hjónabandinu. Fram undir miðjan áratuginn kváðu lög Kaliforníuríkis ekki sérstaklega á um kyn hjóna og því gat hjónaband tveggja karla eða tveggja kvenna talist stjórnarskrárbundin réttindi. Tillagan var samþykkt með 52% atkvæða.
Mjög hart var deilt um tillöguna og aðeins nokkrum mánuðum eftir að hún var samþykkt hófust málaferli til að fá hana ógilda. Þar á meðal var mál tveggja para, Kristin Perry og Söndru Stier og Pauls Katami og Jeffreys Zarillo, sem hafði verið neitað að um ganga í hjónaband af opinberum starfsmönnum Kaliforníuríkis. Þau fóru því í mál við starfsmennina, Schwarzenegger ríkisstjóra og fleiri.
Venjuleg, flekklaus pör valin
Raunar höfðu þau ekki frumkvæðið að málsókninni heldur völdu lögfræðingar og hagsmunasamtök þau úr hópi nokkurra samkynja para. Hagsmunasamtökin voru á höttum eftir „venjulegum“ pörum sem hinn almenni borgari gat samsamað sig með. Þau urðu að eiga flekklausa fortíð og máttu ekki gera neitt eða halda á lofti skoðunum sem myndu láta fólk efast um að þau stæðu vörð um þau gildi sem hinn almenni bandaríski borgari héldi í heiðri. Þar að auki var lögfræðingurinn Ted Olson fenginn til liðs við lögsóknina en hann er annálaður íhaldsmaður og hafði meðal annars unnið fyrir George W. Bush Bandaríkjaforseta. Honum þótti verkefnið áhugavert út frá lögfræðilegu sjónarmiði en var einnig hlynntur hjónabandi tveggja einstaklinga af sama kyni vegna þess að hann taldi það styðja við gildi eins og fjölskylduna, barneignir og viðhald ríkjandi viðmiða samfélagsins. Lögsóknin byggði því á frekar íhaldssömum forsendum. Hún bar þó tilætlaðan árangur; ríkisdómstóll Kaliforníu úrskurðaði í ágúst 2010 að Tillaga 8 stæðist ekki stjórnarskrá og Hæstiréttur Bandaríkjanna staðfesti þann úrskurð í júní 2013.