Compton’s Cafeteria, Stonewall og pride
Stonewall-uppþotin í New York þykja gjarna hafa markað upphafið að réttindabaráttu hinsegin fólks á Vesturlöndum. Þeirra er oft minnst á þann veg að þar hafi hvítir samkynhneigðir karlar risið upp gegn undirokun lögreglunnar og samfélagsins alls. Síðan hafi aðrir hópar hinsegin fólks fylgt í kjölfarið. Sá söguskilningur er um margt misvísandi. Í fyrsta lagi var trans fólk (sérstaklega svartar trans konur og trans konur frá Suður-Ameríu) mjög áberandi í uppþotunum og það hafði þar að auki um árabil staðið haldið úti andófi gegn lögreglunni í New York. Í öðru lagi á barátta hinsegin fólks sér miklu lengri sögu. Til dæmis höfðu fjölmörg félagasamtök verið stofnuð fyrr af samkynhneigðu millistéttarfólki bæði í Bandaríkjunum og Evrópu (stundum nefnd einu nafni „The Homophile Movement“) í þeim tilgangi að stuðla að jafnrétti á grundvelli kynhneigðar. Þar að auki eiga samfélög hinsegin fólks sem stofnuð voru í kringum bari og heimapartí sér mjög langa sögu sem má rekja allt aftur til fjórða áratugarins í Bandaríkjunum, lengra aftur í Evrópu. Það má því segja að útbreiddar hugmyndir um Stonewall-uppþotin séu byggðar á goðsögnum frekar en raunveruleikanum en þar sem þau eru jafnáberandi í söguvitund Vesturlandabúa og raun ber vitni þótti okkur tilefni til að fjalla aðeins um þau hér.
Stonewall
Að morgni 28. júní 1969 réðust lögreglumenn inn í Stonewall-krána við Christopher Street í Greenwich Village í New York. Þetta var ein af venjubundnum innrásum lögreglunnar á hinsegin bari í borginni. Bæði eigendur og kúnnar krárinnar voru vanir slíkri meðferð lögreglunnar en af einhverjum ástæðum var innrásin þennan morgun í júní dropinn sem fyllti mælinn. Sumir telja að fráfall Judy Garland, sem var átrúnaðargoð margra samkynhneigðra karla, dragdrottninga og trans kvenna, hafi haft áhrif á þróunina. En þessa nótt risu kúnnar krárinnar upp gegn lögreglunni og grýttu laganna verði, fyrst með smápeningum, svo flöskum og steinum. Endaði það með því að lögreglan þurfti að læsa sig inni á kránni á meðan hópur hinsegin fólks fyrir utan stækkaði í sífellu og og reyndi að brjóta sér leið inn. Óeirðalögreglunni tókst loks að bjarga félögum sínum og brjóta uppþotin á bak aftur en um kvöldið sama dag, 28. júní, komu þúsundir mótmælenda saman við Stonewall-krána svo aftur kom til uppþota. Mótmælin héldu áfram út vikuna.
Réttindabarátta hinsegin fólks tók kipp eftir uppþotin. Félög eins og STAR (Street Transvestite Action Revolutionaries), Gay Liberation Front og Gay Activist Alliance voru stofnuð og hinsegin útgáfa stórefldist. Stonewall-uppþotin eru því talin marka upphafið að réttindabaráttu hinsegin fólks á Vesturlöndum eins og við þekkjum hana í dag.
Enginn veit hver átti frumkvæðið að uppþotunum. Ein saga segir að til þeirra hafi komið þegar Marsha P. Johnson, sem átti eftir að verða áberandi í réttindabaráttu trans fólks, fékk nóg af áreitni lögreglunnar og henti glasi í vegg inni á Stonewall-kránni. Víst er að hún var ein af þeim fyrstu til að snúast gegn lögreglunni þessa örlagaríku nótt.
Hlutur trans fólks
Trans fólk, sérstaklega trans konur, var áberandi í Stonewall-uppþotunum. Þær höfðu reyndar oftar en einu sinni mótmælt kröftuglega aðför lögreglunnar að trans rýmum á síðari hluta sjöunda áratugarins. Fyrstu slíku átökin áttu sér stað í The Compton’s Cafeteria í San Francisco en kaffihúsið var einn af fáum stöðum þar sem trans fólk gat komið saman óáreitt í borginni því það var óvelkomið á stöðum samkynhneigðra. Eina ágústnótt árið 1966 mætti lögreglan á kaffihúsið til að handtaka háværar trans konur sem þar voru komnar saman. Handtökutilraunin endaði með því að ein kvennanna skvetti kaffi framan í einn lögregluþjónanna sem leiddi til uppþota og mótmæla fyrir framan kaffiteríuna næsta kvöld vegna þess að trans fólki hafði verið meinaður aðgangur að staðnum.
Það var einmitt trans fólk og aðrir sem þóttu „afbrigðilegir“ sem urðu mest fyrir barðinu á áreitni lögreglunnar. Átti það sérstaklega við ef viðkomandi voru svört, eins og Marsha P. Johnson, á meðan hvítu, borgaralegu samkynhneigðu karlarnir áttu mun auðveldara með að sleppa undan lögreglunni. Í minningunni um Stonewall-uppþotin hefur þó gleymst að trans konur, sérstaklega svartar og/eða ættaðar frá Suður-Ameríku, áttu mjög stóran hlut í þeim. Einnig hafa átök á borð við þau í The Compton’s Cafeteria að mestu fallið í gleymskunnar dá þótt þau hafi átt stóran þátt í að skapa það andrúmsloft sem gerði Stonewall-uppþotin möguleg.
Pride-göngur
Fyrsta pride-gangan var haldin í New York 28. júní 1970 til að minnast þess að eitt ár var liðið frá Stonewall-uppþotunum. Leiðin lá frá Christopher Street til Central Park. Þúsundir tóku þátt í göngunni og sumir komu langt að til að sýna stuðning í verki. Göngur og mótmæli af ýmsum toga áttu sér þó þegar nokkurra ára sögu í Bandaríkjunum. Samtökin Mattachine Society og Daughters of Bilitis mótmæltu til dæmis misrétti sem hinsegin fólk mætti í starfi hjá hinu opinbera fyrir framan Hvíta húsið í Washington árið 1965.
Frá 1970 hafa slíkar göngur verið haldnar árlega og laðað að sér mjög ólíkan hóp hinsegin fólks. Fyrirbærið breiddist út um Bandaríkin og nú eru árlegar pride-hátíðir haldnar í Atlanta, Chicago, Los Angeles, Minneapolis, Seattle og San Francisco sem vara í nokkra daga og lýkur með pride-göngu. Pride-vikan í San Francisco er ein af stærstu hátíðunum sem haldnar eru í gjörvöllum Bandaríkjunum. Einnig eru pride-göngur haldnar víða um Evrópu, Eyjaálfu og Asíu.
Eftir því sem göngurnar hafa breiðst út og notið meiri velvilja hafa þær að miklu leyti hætt að vera kröfugöngur og orðið að gleðigöngum. Þar er lögð áhersla á fögnuð og að hinsegin fólk geti verið stolt af því að vera eins og það er. Þar sem gleðigöngur fara fram í ró og spekt hefur borið á því að þær verði markaðsöflum að bráð og að auglýsingar frá fyrirtækjum setji stóran svip á þær, jafnvel svo stóran að hinsegin grasrótarhópum sé ýtt til hliðar.
Eðli pride-ganga fer þó auðvitað eftir samfélaginu sem þær fara fram í. Sums staðar eru þær markaðsvæddar gleðigöngur en annars staðar eru þær rammpólitískar og uppspretta átaka milli hinsegin fólks og annarra samfélagsmeðlima, jafnvel yfirvalda sem reyna víða að leggja stein í götu aðstandendanna. Í verstu tilfellunum leggja þátttakendur sig í hættu við að mæta í slíkar göngur.