Söguskoðun

Hugtakið söguskoðun á við þær hugmyndir sem samfélög gera sér um söguna, oftast eigin sögu, og eru mótaðar í söguritum, pólitískri orðræðu og almennum umræðum. Söguskoðunin er ekki ávallt í samræmi við niðurstöður fræðirannsókna á fortíðinni heldur hafa þvert á móti gjarna á sér goðsagnakenndan blæ.

Ríkjandi söguskoðun á Vesturlöndum spyrðir gjarna hinsegin sögu saman við sögu réttindabaráttunnar sem er sögð hafa byrjað með réttindabaráttu samkynhneigðra í kjölfar Stonewall-uppþotanna í New York. Í því felst lítil meðvitund um að hinsegin fólk hafi átt sér sögu fyrir miðja 20. öld eða að hinsegin sjálfsmynd eins og við þekkjum hana í dag sé tiltölulega nýtt fyrirbæri. Þess vegna eru árin og aldirnar fyrir miðja 20. öld hulin móðu, samkvæmt ríkjandi söguskoðun, þrátt fyrir að í henni felist einnig hugmyndir um að hinsegin fólk hafi alltaf verið til.

Íslensk hinsegin söguskoðun

Þessi vestræna söguskoðun hefur haft áhrif á þær hugmyndir sem ríkja um sögu hinsegin fólks almennt og það vitnar um alþjóðlegan blæ hennar. Íslenskri hinsegin söguskoðun mætti í stuttu máli lýsa svona: Samkynhneigt fólk kemur út úr þokunni um miðja 20. öld en það er hnípið fólk í vanda sem felur kynhneigð sína, sættir sig við að geta ekki opinberað hana og hefur ekki áhuga á eða treystir sér ekki út í mannréttindabaráttu. Sumir flýja land til Danmerkur vegna fordóma heima fyrir sem byggjast á fáfræði og birtast meðal annars í misrétti, mismunun og ofbeldi. Þá kemur fram á sjónarsviðið ný og drífandi kynslóð ungs fólks (þó aðallega ungra karla) sem sættir sig ekki við að vera álitið afbrigðilegt og misréttið sem því fylgir. Fólkið binst samtökum, Samtökunum ’78, og fer að berjast fyrir réttindum sínum og fræða almenning um málefni samkynhneigðra. Þar með hefst sú sögulega framvinda sem söguskoðunin byggir á. Stundum er hraðspólað frá stofnun Samtakanna og fram að fyrstu áföngunum í baráttunni fyrir jöfnum rétti til hjónabands sem náðust árið 1996 en sums staðar er fjallað um neikvæð viðbrögð við réttindabaráttunni, oft með tilvísun til þess þegar Ríkisútvarpið neitaði að spila auglýsingar Samtakanna ’78 á þeim forsendum að orðin hommi og lesbía væru erlend.

Fullt jafnrétti árið 2010?

Þrátt fyrir það er undirstrikað að með ötulli réttindabaráttu hafi tekist að ná fram hægfara viðhorfsbreytingu í garð samkynhneigðra. HIV kemur stundum við sögu sem síðasta hindrunin á vegi hinsegin fólks en eftir að þeim lágpunkti er náð er allt sett á fullt span upp á við í réttindabaráttu samkynhneigðra og stórir áfangar nást í átt að fullu jafnrétti. Mælikvarðinn á velgengnina eru lagasetningar sem miða að auknum réttindum tveggja einstaklinga af sama kyni til að stofna fjölskyldu, það er gifta sig og eignast börn, og hversu margir mæta til að horfa á gleðigönguna á Hinsegin dögum í Reykjavík. Samkvæmt þessum mælikvarða var fullu jafnrétti náð árið 2010 þegar komið var á einum hjúskaparlögum fyrir alla og fullum lagalegum rétti para til gervifrjóvgunar og ættleiðingar óháð kynjasamsetningunni í sambandinu. Og nú er svo komið, samkvæmt söguskoðuninni, að hinsegin Íslendingar njóta svo mikilla réttinda að þeir geta gert jafnrétti og mannréttindi hinsegin fólks að útflutningsvöru.

Gagnrýni

Gagnrýnendur hafa bent á að þessi söguskoðun sé mjög normalíserandi því hún varpi takmörkuðu ljósi á gagnkynhneigðarhyggju og þau stigveldi innan samfélagsins sem jaðarsetja hinsegin fólk. Hún breiði þvert á móti yfir gagnkynhneigðarhyggju eða ýti undir hana með því að stilla aðgangi að gagnkynhneigðum viðmiðum, eins og hjónabandi og fjölskyldu, upp sem lokamarkmiðum baráttunnar og láti þannig líta svo út að fullu jafnrétti á við sís gagnkynhneigt fólk hafi verið náð. Hún einkennist því af samkynhneigðum viðmiðum. Gagnrýnisraddir benda aftur á móti á að baráttan sé rétt að byrja. Þess utan spyrji þessi söguskoðun hvorki áleitinna spurninga um valdakerfi og ríkjandi hugmyndafræði né ögri viðteknum hugmyndum og gagnkynhneigðum viðmiðum heldur stilli aðgangi að þeim upp sem markmiðum baráttunnar. Þannig ýti hún undir það viðhorf að fólk í parsamböndum með börn sé helsta samfélagsstoðin og umbuna beri fólki fyrir þess konar tilveru. Jafnframt eigi hún þátt í að skapa mynd af stofnunum eins og ríki og kirkju sem eins konar bjargvættum í stað þess að undirstrika ábyrgð þeirra á jaðarsetningu hinsegin fólks í gegnum tíðina. Með öðrum orðum innlimi hún hinsegin fólk í viðtekin norm, samfélagið og þjóðríkið og því endurspegli hún og ýti undir hinsegin þjóðernishyggju og samlögun hinsegin fólks að gagnkynhneigðum viðmiðum.