Bréfaklúbbur samkynhneigðra karla

Árið 1977 birtist í tímaritinu Alþýðumaðurinn stutt grein undir fyrirsögninni „Einn þáttur mannlegs eðlis“. Þar greindi frá því að þrjátíu manna hópur karla milli tvítugs og þrítugs hefði stofnað með sér samtökin Iceland Hospitality, nánar tiltekið árið 1976. Þeir ættu það sameiginlegt að „telja svonefnda „kynvillu“ hvorki sjúkdóm né siðspillt athæfi heldur einn þátt mannlegs eðlis, sem hvorki er gerlegt né endilega æskilegt að bæla niður.“ Megintilgangur samtakanna væri að „efla samskipti þeirra sem eru sama sinnis og vinna gegn fordómum og fáfræði um þessi mál.“

Ekki til að auka kynvillu

Félagið var bréfaklúbbur sem stofnaður var að ísraelskri fyrirmynd og varð „öflugur félagsskapur“ að sögn tveggja stofnenda þess. Það átti pósthólf nr. 4166 og þangað barst nokkur fjöldi bréfa, meðal annars frá erlendum gestum sem sóttu landið heim. Félagið var einnig í sambandi bréfleiðis við félagasamtök erlendis og fékk þaðan upplýsingar, bæklinga og rit. Erfiðlega gekk að koma félaginu á framfæri innanlands. Þeir greiddu meðal annars Dagblaðinu fyrir auglýsingu sem birtist aldrei en eftir kvartanir við ritstjóra og nokkurt stapp birtist tilkynningin ásamt nafnlausu viðtali við formanninn undir yfirskriftinni „Ekki stofnuð til að auka kynvillu“.

Þessi grein vakti heilmikið umtal og ýmsar greinar voru birtar um þetta uppátæki í kjölfarið. Sumar þeirra einkenndust af fordómum og fyrirlitningu þar sem litið var á samkynhneigð sem sjúkdóm sem þyrfti að lækna. Maður sem notaði dulnefnið „Heilbrigður“ skrifaði reiðilestur í Vísi undir titlinum „Ráðumst gegn kynvillu og öðru óeðli“. Æsisnepillinn Mánudagsblaðið birti á forsíðu sinni þann 1. ágúst 1977 fyrirsögnina „Kynvillufélag leyft á Íslandi“ undir yfirskriftinni „Hættulegt „frelsi“ – Hryggilegar afleiðingar“.

Iceland Hospitality var eins konar forveri Samtakanna ’78 enda áttu sumir forsvarsmanna bréfaklúbbsins þátt í stofnun samtakanna. Lítið bar á félaginu eftir að réttindasamtökin voru stofnuð sem reyndar mátti einnig rekja til þess að flestir forsvarsmannanna höfðu flutt til útlanda. Það starfaði þó áfram sem deild innan Samtakanna.

Nánar má lesa um Iceland Hospitality á blaðsíðu 16 í afmælisriti Samtakanna ’78 frá árinu 2008.


Pósthólf

4166

(óvirkt)