Félag hinsegin stúdenta
Félag samkynhneigðra stúdenta var stofnað í janúar 1999 í kjölfar reglulegra funda þar sem staða samkynhneigðra við Háskóla Íslands var rædd og krufin. Fjöldi félaga fór strax yfir 150 manns. Stúdentafélagið hefur gjarna verið róttækara en gengur og gerist innan annarra hinsegin samtaka og því veitt hinsegin pólitík á Íslandi mikilvægt aðhald. Það var í fararbroddi þegar kom að því að taka tvíkynhneigða og trans fólk inn í félagið og varð fyrst til að taka orðið „hinsegin“ inn í formlegt heiti félagsins til að undirstrika að það þjónaði hagsmunum fjölbreyttra hópa hinsegin fólks. Það gerðist árið 2008 þegar nafni félagsins var breytt í Q – félag hinsegin stúdenta.
Markmið félagsins eru að:
- gefa hinsegin stúdentum tækifæri til að hittast, veita þeim stuðning og auka samheldni þeirra
- vera sýnilegt afl innan háskóla og í forsvari þegar málefni hinsegin einstaklinga ber á góma
- beita sér í réttindabaráttu hinsegin fólks innan og utan háskóla
- stuðla að aukinni fræðslu, kennslu, umræðu og rannsóknum um málefnið innan sem flestra deilda háskóla
Félagið á í viðamiklu samstarfi við erlend og alþjóðleg stúdentafélög og tekur virkan þátt í alþjóðlegri réttindabaráttu hinsegin stúdenta. Það hefur nokkrum sinnum haldið alþjóðlegar ráðstefnur á Íslandi.