Frá 2020 hafa Samtökin ’78 rekið vefinn Hinsegin frá Ö til A.
Allar fyrirspurnir varðandi vefinn má senda hér.

Tilurð þessa vefs

Við höfum báðar fjallað talsvert um hinsegin málefni. Ýmiss konar fólk hefur viljað ræða málin og fræðast; fjölskylda okkar, vinir, kennarar, unglingar, jafnréttisfulltrúar og læknar. Í öllum þessum umræðum og pælingum hefur þörfin fyrir vefsíðu um hinsegin málefni bersýnilega komið í ljós. Það hefur einfaldlega ekki verið til neitt heildstætt íslenskt efni um þennan geira. Fólk hefur þurft að þekkja ensku hugtökin og villast svo um alls konar síður í völundarhúsi Internetsins.

Skilningur á hinsegin málefnum í síkvikum heimi

Smám saman sáum við að við áttum talsvert mikið efni hér og þar í glærupökkum, pistlum, fyrirlestrum og Facebook-stöðufærslum – og datt í hug að taka saman þetta efni, bæta það og auka við það. Úr varð Hinsegin frá Ö til A sem er vefsíða ætluð öllum ofangreindum hópum. Á síðunni höfum við tekið saman ýmiss konar hugtök sem koma við sögu í hinsegin fræðum, menningu, sjálfsmyndum og pólitík.

Nokkra fyrirvara verður þó að gera:

Síðunni er ekki ætlað að vera sannleikurinn um hinsegin líf og hinsegin tilveru. Hún endurspeglar þekkingu okkar á Íslandi í dag. Annað hinsegin fólk gæti séð hlutina frá öðru sjónarhorni og skilið hugtökin á annan hátt. Það er allt í lagi, því heimurinn er síkvikur og skilningur fólks á mannlegu eðli líka.

Síðan er vestræn og leitast ekki við að fjalla um hinsegin tilveru og pólitík utan Vesturlanda. Í öðrum menningarheimum eru önnur orð notuð, aðrar baráttur háðar og önnur menning sem er kannski, og kannski ekki, lík því sem þessi síða lýsir.

Við höfum gert okkar besta til að íslenska flest hugtökin sem við fjöllum um en það er einnig síkvikt ferli. Við viljum því undirstrika að hægt er að þýða orðin á margvíslegan hátt og ekki er víst að tillögur okkar að þýðingum muni festast í sessi í tungumálinu.   

Raunveruleikatenging með reynslusögum

Við höfum einnig safnað reynslusögum frá hinsegin fólki. Með þeim hætti viljum við undirstrika að þó að þessi hugtök virki mörg hver nokkuð „tæknileg“ er hér í raun verið að fjalla um líf fólks af holdi og blóði. Höfundar innslaganna fengu frjálsar hendur við form og inntak textanna en voru beðnir um að varpa persónulegu ljósi á einhver viðfangsefna vefsíðunnar. Nokkrir einstaklingar skiluðu sínum innslögum í formi teikninga en aðrir í formi texta. Fólkið valdi sjálft hvort það kæmi fram undir nafni eða ekki.

Njótið vel,

Auður Magndís Auðardóttir
Íris Ellenberger


Auður Magndís Auðardóttir er félagsfræðingur, doktorsnemi í félagsfræði menntunar og aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún var áður meðal annars verkefnastjóri Jafnréttisskóla Reykjavíkur og framkvæmdastjóri Samtakanna ’78. Auður hefur tekið þátt í hinsegin og femínískum aktívisma síðastliðin 15 ár.



Íris Ellenberger er sagnfræðingur með áherslu á sögu kynverundar og fólksflutninga. Hún starfar sem nýdoktor á Hugvísindastofnun Háskóla Íslands. Íris hefur tekið virkan þátt í hinsegin aktívisma, femínisma og umhverfisvernd. Hún hefur einnig ritað fjölmarga pistla um hinsegin málefni og birt niðurstöður fræðilegra rannsókna um lesbíur og femínisma á Íslandi á níunda áratug 20. aldar og hugmyndina um Ísland sem hinsegin paradís í sögulegu samhengi. Þá er hún einn ritstjóra Svo veistu að þú varst ekki hér, fyrsta íslenska greinasafnsins um hinsegin sögu og hinsegin fræði.

Láttu í þér heyra!