Hvað er hýrginning?

Hugtak notað í tengslum við kvikmyndir eða sjónvarpsþætti sem vísar til þess þegar handritshöfundar og leikstjórar skapa hinsegin undirtexta, búa til kynferðislega spennu milli tveggja persóna af sama kyni eða gefa annars konar hinsegin samband til kynna sem reynist síðan blekking eða grín. Tilgangurinn er að laða hinsegin fólk að skjánum og auka þannig áhorf án þess að fæla íhaldssama áhorfendur frá.

Grín, blekkingarleikur eða tilraunastarfsemi?

Meðal myndefnis sem hefur verið gagnrýnt fyrir hýrginningu eru sjónvarpsþættirnir Sherlock, Rizzoli and Isles, Supernatural og Resistance. Aðstandendur Rizzoli and Isles hafa meira að segja viðurkennt að þeir ýti undir kynferðislega spennu milli aðalsöguhetjanna tveggja, sem báðar eru kvenkyns, til þess að laða samkynhneigðar konur að skjánum. Fyrirbærið virðist birtast á ólíkan hátt eftir því hvers kyns söguhetjurnar er. Kynferðislegt samband milli Sherlocks og Watsons er gamansamur undirtexti í fyrstu þáttunum af Sherlock og eftir það er því reglulega slegið upp í grín. Ef persónurnar eru konur er ekki óalgengt að kynlífsatriði birtist á skjánum áður en það kemur í ljós að persónurnar voru í blekkingarleik (sjá t.d. Resistance), í tilraunastarfsemi og þar fram eftir götunum. Að minnsta kosti verður sambandið ekki langlíft og varpar ekki skugga á gagnkynhneigð persónanna. [1]Dauðar og yfirborðskenndar lesbíur

Önnur nýlegri birtingarmynd þessa fyrirbæris er þegar framleiðendur sjónvarpsþátta skrifa raunveruleg hinsegin sambönd inn í söguþráðinn en hafa þau þó alltaf á hliðarlínunni og fjalla aðeins á yfirborðskenndan hátt um samband persónanna og tilfinningalíf. Dæmi um þetta má sjá í sjónvarpsþáttunum Hart of Dixie og Broadchurch.

Einnig má nefna tilhneigingu sjónvarpsþáttaframleiðenda til að drepa hinsegin sögupersónur. Þetta er stundum nefnt „klisjan um hina dauðu lesbíu“ eða „dead lesbian cliché“. Dáin kona er notuð til þess að hafa áhrif á tilfinningar áhorfendanna og þannig er ýtt undir kvenhatur í afþreyingarmenningu. Slíkt má sjá í fjölmörgum þáttum eins og Buffy, The 100, ER, Under the Dome, American Horror Story, Gray‘s Anatomy, Last Tango in Halifax og Call the Midwife. Þarna færa aðstandendur myndefnisins sér það í nyt að hinsegin sögupersónur í afþreyingarefni eru fáar, þótt þeim fari fjölgandi, og efni sem er skapað sérstaklega með hinsegin áhorfendur í huga er sömuleiðis af skornum skammti. Jafnframt leggja þeir sitt af mörkum til að halda hinsegin persónum í lágmarki með því að taka þær af lífi eða skrifa um hinsegin hegðun og tilveru sem blekkingu, grín eða misskilning. Þeir svipta hinsegin fólk möguleikanum á að sjá persónur eins og sig á skjánum og setja frásagnir af sís gagnkynhneigðu fólki í forgrunn. [2]

En á ensku?

Queerbaiting


Orð um orð

Orðið queerbaiting hefur ekki fyrr verið þýtt á íslensku svo vitað sé en hér er gerð tilraun með að nota orðið hýrginning.