Hvað er margþætt mismunun?

Sumt fólk tilheyrir fleiri en einum jaðarsettum hópi. Samt sem áður erum við vön því að ræða bara um eina tegund jaðarsetningar í einu. Yfirleitt er talið að hægt sé að leggja saman þau vandamál sem til dæmis samkynhneigðir og konur glíma við og þannig sé hægt að fá innsýn í jaðarsetningu samkynhneigðra kvenna. Málið er þó ekki alveg svo einfalt.

Samtvinnun sem svar við margþættri mismunun

Baráttukonum fyrir réttindum svarts fólks í Bandaríkjunum á sjötta og sjöunda áratugnum varð tíðrætt um að mismununin sem þær fyndu fyrir væri önnur og meiri en sú sem bæði svartir karlar og hvítar konur yrðu fyrir. Það var svo fræðikonan Kimberlé Crenshaw notaði fyrst kvenna orðið samtvinnun eða skörun (e. intersectionality) til að lýsa því að nauðsynlegt væri að taka ólíkan veruleika fólks sem býr við margþætta mismunun með í reikninginn í öllu jafnréttisstarfi.

Þannig búa til dæmis samkynhneigðir karlar við fordóma og mismunun sem lýsir sér á ákveðinn hátt. Samkynhneigðar konur búa við marga af sömu fordómum og jafnframt við bróðurpartinn af þeirri mismunun sem konur verða almennt fyrir í samfélaginu. En vegna þess að þær búa við margfalda mismunun verða til vandamál sem hvorki samkynhneigðir karlar né gagnkynhneigðar konur búa við. Vandamálin margfaldast. Þau síðan margfaldast enn á ný ef þessi samkynhneigða kona er í þokkabót trans, ekki hvít, af erlendum uppruna, feit, fötluð, intersex og þar fram eftir götunum.

Talað er um samtvinnun þegar við tökum ólíka hópa fólks með í reikninginn og skoðum sérstaklega tengslin og skörunina á milli þeirra. Til að mynda er talað um samtvinnun í jafnréttisstarfi þegar ekki er eingöngu horft til jafnréttis á grundvelli kyns heldur einnig fötlunar, litarhafts, þjóðernis, kynhneigðar, kynvitundar o.s.frv.