Hvað eru gagnkynhneigð viðmið?

Hugtakið gagnkynhneigð viðmið er mjög skylt gagnkynhneigðarhyggju. Gagnkynhneigð viðmið gera ráð fyrir að allt fólk sé gagnkynhneigt. Sú ályktun er innbyggð í samfélagsgerðina og menninguna. Gagnkynhneigð viðmið birtast til dæmis í spurningum, athugasemdum og ályktunum, svo sem þegar kona er spurð hvort hún eigi mann, þegar unglingum er kennt að á kynþroskaaldrinum kvikni áhugi á „hinu kyninu“ og þegar sagt er við lítinn strák að hann geti eignast börn þegar hann sé búinn að eignast konu.

Ef engin gagnkynhneigð viðmið væru til staðar væri kona spurð hvort hún ætti karl, konu eða kynsegin maka, unglingum kennt að á kynþroskaaldrinum kvikni áhugi sumra á kynlífi og sagt við lítinn strák að það væru til fjölmargar leiðir til að eignast börn. Gagnkynhneigð viðmið eru líka tengd hugtakinu öráreitni.