Normatívur – normalíserandi

Það að vera normatívur er að vera í samræmi við samfélagslega staðla/norm samfélagsins. Baráttan fyrir því að hinsegin fólk fái að giftast hefur til dæmis verið sögð normatív þar sem hún miðar að því að hinsegin fólk gangi inn í ríkjandi norm samfélagsins í stað þess að umbylta þeim. Slík umbylting gæti til dæmis falið í sér að krefjast þess að í stað þess að ýmiss konar réttindi (t.d. í tengslum við skatta- og erfðamál) séu bundin hjónabandinu geti þau verið í boði í alls konar samböndum, vilji fólkið á annað borð öðlast þau. Til dæmis mætti vel hugsa sér samsköttuð mæðgin eða bestu vinkonur sem vilja erfa hvor aðra.

Það að vera normalíserandi merkir að breyta hlutum og líkömum þannig að þeir séu sem líkastir norminu. Það ferli nefnist þá normalísering. Til dæmis hafa aðgerðir á kynfærum intersex barna, sem miða að því að gera kynfærin sem líkust algengustu kynfærum karla og kvenna, verið nefndar normalíserandi aðgerðir.

Í umræðu um klám og klámvæðingu hefur þetta hugtak einnig verið notað í þeirri merkingu að eitthvað sem ekki var algengt áður eða litið hornauga sé nú orðið algengt og samþykkt: „Ofbeldisfullt klám hefur verið normalíserað.“ Sjá til dæmis umfjöllun um klámvæðingu á heimasíðu Jafnréttisstofu.

Í fræðilegu samhengi merkir það að vera normatívur yfirleitt að einhver undirliggjandi pólitísk afstaða sé til staðar. Femínískar rannsóknir eru til að mynda alltaf normatívar því þær ganga út frá því að jafnrétti karla og kvenna sé eftirsóknarvert og ákjósanlegt sem felur í sér pólitíska afstöðu.

En á ensku?

Normative, normalising


Orð um orð

Í fræðilegu samhengi hefur hugtakið normative stundum verið þýtt sem boðandi eða bjóðandi.