Eitt af því sem kemur oft fljótt upp þegar rætt er um hinsegin tilveru er spurningin: En af hverju þurfum við að vera að flokka fólk? Er ekki fólk bara fólk og ást bara ást? Ekki flokkum við fólk eftir skóstærð eða hárlit!

Í fyrsta lagi má segja að við þurfum þessi ólíku orð til að við getum rætt um tilfinningar okkar og upplifanir. Ef við hefðum ekkert orð yfir það að vera trans, yfir það að vera kynsegin eða pankynhneigð, hvernig ættum við þá að geta rætt þá reynslu okkar og þann mikilvæga part af okkur sjálfum? Hinsegin fólk verður enn fyrir ýmiss konar fordómum og jaðarsetningu og ef við eigum ekki orð yfir það í fari okkar sem veldur því að við erum útsettari fyrir slíku, hvernig getum við þá rætt það?

Í öðru lagi er afskaplega stutt síðan hinsegin fólk fór að hittast, móta sjálfsmynd sína út frá því að vera hinsegin og berjast fyrir réttindum sínum. Það eru ekki nema 40 ár síðan það gerðist á Íslandi og þá einkum hjá samkynhneigðu fólki. Það er fullkomlega eðlilegt að það bætist í hinsegin orðaforðann eftir því sem baráttunni vindur fram, fleira fólk kemur út og nýjar kynslóðir bætast í hópinn, rétt eins og við eigum miklu fleiri orð yfir tölvur og tölvutækni núna en þegar tölvur komu fyrst fram á sjónarsviðið.

Að þessu sögðu er þó rétt að árétta að fólki er það fullkomlega í sjálfvald sett hvort það vill nota einhver þeirra hinsegin hugtaka sem til eru um sjálft sig. Skilgreiningarvaldið ætti alltaf að vera í höndum hverrar og einnar manneskju. Sumum hentar að nota mörg og sértæk orð yfir sína reynslu. Öðrum hentar að segja einfaldlega: ég er hinsegin eða ég skilgreini ekki kyn mitt eða kynhneigð. Hvort tveggja er fullkomlega góð og gild leið í lífinu.