Samlögun – samlögunarkrafa

Hugtökin samlögun og samlögunarkrafa eiga sér langa sögu, til dæmis í umræðu um innflytjendur þar sem þau vísa til samfélagslegs þrýstings og/eða stjórnvaldsaðgerða sem miða að því að fá innflytjendur til að varpa upprunamenningu sinni fyrir róða og laga sig í einu og öllu að siðum og venjum meirihlutasamfélagsins.

Að laga sig að samfélaginu

Í hinsegin samhengi vísa hugtökin til þeirrar tilhneigingar sem gætt hefur hjá vestrænum hinsegin samfélögum og baráttuhreyfingum að setja hagsmuni normatívs hinsegin fólks, aðallega sískynja, samkynhneigðra, hvítra, ófatlaðra millistéttarkarla, í forgrunn. Sú barátta er iðulega háð undir þeim formerkjum að samkynhneigt fólk (stundum hinsegin fólk í heild) sé alveg eins og annað fólk. Það óski þess eins að falla fullkomlega inn í meirihlutasamfélagið og vilji ekki rugga bátnum með því að grafa undan eða breyta ríkjandi gildum og samfélagsskipan. Helsta birtingarmynd samlögunartilhneigingar vestrænna hinsegin baráttuhreyfinga er yfirgnæfandi áhersla á hjónaband tveggja einstaklinga af sama kyni og rétt þeirra til að eignast börn. Þessi áhersla er að vissu leyti komin frá sískynja samkynhneigðu fólki sem hefur mest völd innan hreyfinganna. Hún mótast þó aðallega af samfélagslegum þrýstingi sem reynir að beina baráttunni í þann farveg sem felur í sér minnstar samfélagslegar breytingar.

Gagnrýni á samlögun

Á undanförnum árum hafa ýmsir gagnrýnt áherslu á samlögun og bent á að hún sé skaðleg fyrir jaðarsetta hópa innan hinsegin samfélagsins; hópa sem af ýmsum ástæðum standi ekki samlögun til boða eða glími við margþættan vanda sem samlögun breiði yfir í stað þess að takast á við. Er þá gjarna átt við trans fólk, fátækt hinsegin fólk og hinsegin fólk með annan húðlit en hvítan. Jafnvel eru dæmi þess að samlögun valdamikilla hinsegin hópa hafi neikvæð áhrif á aðra. Til að mynda hefur sískynja, samkynhneigt, hvítt fólk reynt að gera jaðarsett hinsegin fólk brottrækt frá Greenwich Village í New York en það hverfi var áratugum saman athvarf fyrir hinsegin ungmenni sem sættu ofbeldi og ofsóknum. [2]