Hvað er intersexismi?

Intersexismi er hugtak sem notað er til að lýsa því hvernig markkynja fólk (sem ekki er intersex) er álitið skör hærra en intersex fólk. Hugtakið er náskylt able-isma, hugmyndakerfi sem setur fatlað fólk skör lægra en ófatlað fólk. Able-ismi lítur á líkama sem eru innan normsins í útliti og virkni sem „réttari“ og betri líkama og álítur fatlaða líkama gallaða. Á sama hátt lítur intersexismi á intersex líkama sem minna virði en líkama sem ekki eru intersex.

Skurðaðgerðir á intersex börnum

Intersex líkamar eru álitnir gallaðir og gerðar eru aðgerðir á þeim sem miða eingöngu að því að laga þá að ríkjandi normum um hvernig kyneinkenni líkamar eiga að hafa. Slíkar aðgerðir eru dæmi um stofnanabundinn intersexisma. Aðgerðir á kynfærum intersex barna sem miða að því að normalísera kynfæri þeirra þannig að þau líti út eins og algengustu kynfæri karla eða kvenna eru stundum nefndar intersex umskurður (IGM, intersex genital mutilation). Umboðsmaður barna fordæmdi árið 2015 þessar aðgerðir og önnur inngrip í líkama intersex barna. Þar kemur fram að á Íslandi fæðist 2–3 intersex börn á ári og að dæmi séu um að aðgerðir séu gerðar á þeim. Þar segir einnig: „ónauðsynleg og óafturkræf inngrip í líkama ungabarna samræmist ekki réttindum þeirra. Réttara væri að intersex börn gætu sjálf tekið ákvörðun um skurðaðgerð og/eða hormónameðferð þegar þau hafa mótað eigin kynvitund og hafa náð þeim aldri og þroska sem þarf til að geta tekið upplýsta ákvörðun.“

En á ensku?

Intersexism eða dyadism

Að vera dyadic merkir að vera ekki intersex. Annað orð yfir dyadic á ensku er endosex. Ekki er til íslensk þýðing á því að vera dyadic/endosex en hér er gerð tilraun með að nota orðið markkynja.


Orð um orð

Orðið intersexismi hefur ekki verið notað á íslensku áður en orðið sexismi þekkist hins vegar í íslensku samhengi, sem og orðið rasismi. Því er ekki úr vegi að á sama hátt sé hægt að nota enska orðið intersexism og laga það að íslensku.


Viltu vita meira?