Fordómar gegn fjölkynhneigðum eru þekktir bæði innan og utan hinsegin samfélagsins. Samtökin ’78 voru upphaflega aðeins fyrir samkynhneigt fólk og miklar deilur risu árið 1993 þegar félagið klofnaði í afstöðu sinni um það hvort tvíkynhneigt fólk ætti að fá inngöngu í það. Svo fór að tvíkynhneigt fólk var ekki formlega tekið inn í félagið fyrr en árið 2007.

Helstu staðalmyndir sem eru ríkjandi um tvíkynhneigt og pankynhneigt fólk eru til dæmis að það sé líklegra til að halda framhjá maka sínum, að það geti bara ekki ákveðið sig, sé druslur, lauslátt og ringlað. Rannsóknir hafa sýnt að þessar staðalmyndir og fordómar gegn tví- og pankynhneigðum hafa áhrif á lífsgæði hópsins.