Hinsegin sagnfræði
Hinsegin sagnfræði á uppruna sinn að rekja til sögu homma og lesbía sem var undir áhrifum þeirra félagslegu hræringa sjöunda og áttunda áratugarins sem gátu af sér femínisma og réttindabaráttu hinsegin fólks. Eftir því sem réttindabaráttunni fleytti fram fóru hommar og lesbíur að fá áhuga á kynhegðun og kyntjáningu fólks fyrr á tímum. Eitt helsta viðfangsefnið var breytileg viðhorf fólks gagnvart samkynhneigð sem var aftur á móti ekki álitin hafa tekið miklum breytingum í gegnum aldirnar. Skortur á sögulegum heimildum um samkynhneigt fólk var því talinn til vitnis um hversu rækilega hefði tekist að bæla niður öll merki um tilvist þeirra. Því var lögð áhersla á að endurheimta söguna, meðal annars í pólitískum tilgangi þegar samkynhneigðir bentu á frægt samkynhneigt fólk í fortíðinni til að réttlæta réttindabaráttu sína.
Uppruni í gagnrýni á femíníska sagnfræði
Hinsegin saga er að hluta til undir miklum áhrifum frá femínískri sögu sem hafði það að markmiði að varpa ljósi á stöðu og kjör kvenna í fortíð og nútíð, skoða fortíðina til að skilja stöðu kvenna í nútímanum og endurskoða ríkjandi rannsóknaraðferðir í sagnfræði. Lesbísk sagnfræði varð í raun til í upphafi níunda áratugar 20. aldar sem gagnrýni á femíníska sagnfræði, þar sem sagan var skoðuð að mestu leyti með gagnkynhneigðum gleraugum og öll merki um ástir milli kvenna fyrr á tímum voru þannig afmáð. Markmiðið með rannsóknum á ástum milli kvenna var að endurheimta sess samkynhneigðra kvenna í sögunni; að afhjúpa gagnkynhneigðarhyggju feðraveldisins og jafnvel femínismans.
Þögn í heimildum
Fræðimenn á þessu sviði voru til að byrja með mjög uppteknir af því að að finna upphaf lesbískrar sjálfsmyndar og hvernig ástir milli kvenna birtust áður en lesbísk sjálfsmynd varð til. Það sama má upp að vissu marki segja um þá fræðimenn sem skoðuðu sögu samkynhneigðra karla. Þeir stóðu snemma frammi fyrir því vandamáli að fáar óyggjandi heimildir voru til um ástir milli tveggja einstaklinga af sama kyni, að minnsta kosti ekki eins og þær birtust í samtíma höfundanna. Þau hugtök sem fræðimennirnir notuðu til að lýsa kynverund og kynhegðun áttu sér ekki hliðstæður í sögulegum heimildum þar sem hugtök eins og samkynhneigð og hinsegin eiga sér mjög stutta sögu.
Með uppgangi hinsegin fræða á tíunda áratug 20. aldar öðluðust sagnfræðingar á þessu sviði tæki til að glíma við þá miklu þögn sem ríkti í heimildum fyrri alda um tilvist hinsegin fólks. Hinsegin fræði ganga út frá því að kynverund og sjálfsmyndir sem byggðar eru á henni, til dæmis samkynhneigð, tvíkynhneigð og kynsegin kynverund, séu skapaðar af samfélaginu og því breytilegar eftir tímabilum og samfélögum. Samkynhneigð megi rekja til þess tíma þegar kynverund varð grundvallarþáttur í sjálfsmynd einstaklingsins. Með tilkomu nútímalæknisfræði og kynfræðinnar fór hugtakið samkynhneigð að vísa til persónueinkenna. Áður fyrr var ekkert slíkt hugtak til sem vísaði til kynferðislegra athafna sem hluta af persónu einstaklingsins, heldur voru kynmök með einstaklingi af sama kyn eingöngu eitthvað sem fólk gerði, ekki eitthvað sem fólk var. Það að eiga í ástarsamböndum við einstaklinga af sama kyni hafði þannig ekki áhrif á sjálfsmynd þeirra einstaklinga sem það gerðu að jafnmiklu leyti og það gerir í dag.
Hvað taldist eðlilegt þá?
Hinsegin sagnfræðingar sem hafa rannsakað söguna út frá nálgun hinsegin fræða hafa þannig leitt í ljós að það er frekar stutt síðan að kynhneigð varð hluti af sjálfsmynd einstaklingsins. Hinsegin sjálfsmynd varð til við tilteknar samfélagsaðstæður sem urðu ekki að veruleika fyrr en á 19. öld. Þá gerðu iðnbyltingin og kapítalisminn það að verkum að einstaklingurinn gat séð sér farborða utan fjölskyldunnar og stundað launavinnu í þéttbýli í návígi við fjöldann allan af einhleypu fólki af sama kyni. Þar myndaðist vettvangur fyrir hinsegin félagsskap af ýmsu tagi og þar með gátu einstaklingar farið að skilgreina sig út frá því við hverja þeir kusu að eiga í ástarsambandi.
Sagnfræðingar gáfu þar með upp á bátinn að finna uppruna hinsegin sjálfsmyndar og hættu að líta á kynhneigð og kynvitund sem óbreytanlegt fyrirbæri; eitthvað sem væri alltaf eins á mismunandi tímabilum og í mismunandi heimshlutum. Með tilkomu hinsegin fræða fóru hinsegin sagnfræðingar að einbeita sér að því að greina kynhneigð, kynvitund og kynverund sem samfélagslega mótuð fyrirbæri og afhjúpa þá ólíku merkingu sem lögð er í þessi fyrirbæri á ólíkum tímum. Einnig var lögð áhersla á að leiða í ljós hvað taldist eðlilegt og hvað afbrigðilegt á hverjum tíma og hvernig frávik frá kynferðislegum normum voru skilgreind á ólíkan hátt á mismunandi tímabilum. Þess vegna er talið hinsegin fræði hafi skapað svigrúm fyrir trans fræði og sögu, meðal annars vegna þess að þau endurskilgreindu kyngervi og kynverundir og endurskoðuðu nálganir hinsegin sögu, til dæmis með tilliti til valdatengsla. Þó er ekki þar með sagt að hinsegin sagnfræði sé algerlega ónæm fyrir þeim valdatengslum sem ríkja innan hinsegin samfélagsins, enda er ljóst að rannsóknir á sögu ólíkra kynhneigða, sérstaklega samkynhneigðar, taka mun stærra pláss í hinsegin sagnaritun en rannsóknir á sögu ólíkra kynvitunda.
Trans sagnaritun
Trans sagnaritun hefur þó verið að ryðja sér til rúms á undanförnum árum og ljóst er að það sem hingað til hefur iðulega verið kallað saga homma og lesbía er um leið saga trans fólks. Vestræn læknavísindi byrjuðu að veita einstaklingum með óhefðbundna kyntjáningu athygli í kringum miðja 19. öld í kjölfar aukins sýnileika „klæðskiptinga“. Sú umræða fléttaðist inn í kenningar um kynhverfu (e. sexual inversion) sem gerðu ráð fyrir því að einstaklingar sem löðuðust að eigin kyni væru í raun fastir í líkama af röngu kyni. Sagnfræðirannsóknir sýna því að þeir hópar fólks sem nú þykja rækilega aðskildir, samkynhneigðir og trans fólk, hafa ekki alltaf verið það. Þar sem hinsegin fólk fortíðarinnar notaði ekki sömu hugtök yfir hinsegin kynhneigðir og kynvitundir og gert er í dag eru þessar sögur rækilega samtvinnaðar og oft erfitt að greina hvort tiltekin söguleg persóna myndi teljast samkynhneigð, tvíkynhneigð, pankynhneigð, trans eða kynsegin í dag. Í trans sagnaritun felst einnig að laða fram sögulega viðburði, persónur, formgerðir og aðra þætti sem hafa hingað til verið vanræktir vegna þess að áhersla hefur verið lögð á sögu samkynhneigðra.
Tenglasafn á efni um íslenska hinsegin sögu: Íslandssaga hinsegin fólks? Hilmar Hildar Magnússon Brot úr sögu samkynhneigðra. Þorvaldur Kristinsson Saga Pride hátíða. Hinsegin dagar Saga regnbogafánans. Hinsegin dagar Uppreisnin í Christopher street. Þorvaldur Kristinsson Misrétti og réttarbætur. Hinsegin dagar Strákarnir á borginni. Þorvaldur Kristinsson Í góðra kvenna hópi. Elísabet Þorgeirsdóttir Hvað er ein Fríða á milli hjóna? Sigurbjörn Svansson Glæpurinn gegn náttúrulegu eðli. Saga Guðmundar glímukappa. Þorvaldur Kristinsson
Queer history