Óviljandi öráreitni
Öráreitni er hugtak sem notað er yfir hversdagslegar athafnir, athugasemdir eða umhverfisþætti sem eru niðrandi eða niðurlægjandi fyrir fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum og eiga sinn þátt í jaðarsetningu þess.
Hver athöfn, umhverfisþáttur eða athugasemd er ef til vill ekki stórvægileg ein og sér en þegar jaðarsett fólk finnur fyrir slíku reglulega, jafnvel daglega, eykur það álagið sem það verður fyrir samfélagsstöðu sinnar vegna og gerir jaðarstöðuna áþreifanlega. Þau sem standa fyrir öráreitni ætla sér ekki endilega að skaða eða taka þátt í jaðarsetningu fólks, heldur er öráreitni þvert á móti stundum ætluð sem hrós. Því eru þau sem láta slíkt út úr sér jafnvel ómeðvituð um afleiðingar gjörða sinna. Af þessum sökum er gjarna bæði erfitt að koma auga á öráreitni og benda gerendum á að hegðun þeirra hafi skaðleg áhrif.
Öráreitni byggir oft á staðalmyndum
Í hinsegin samhengi tekur öráreitni oft á sig mynd gagnkynhneigðra viðmiða, sumsé að ekki er gert ráð fyrir ólíkum kynhneigðum, kynvitundum og kyneinkennum. Einnig byggir hún gjarna á staðalmyndum hinsegin fólks. Þó tekur öráreitni gagnvart hinsegin fólki á sig ólíkar myndir eftir því hvaða manneskja á í hlut og hvort og þá hvernig margþætta mismunun hún býr við. Þannig getur hinsegin fólk einnig verið gerendur gagnvart fólki sem býr við margfalda mismunun eða annars konar margfalda mismunun en það sjálft.
Dæmi um öráreitni:
- Foreldrar af sama kyni þurfa sífellt að fylla út eyðublöð þar sem aðeins er gert ráð fyrir að foreldrar barns séu karl og kona.
- Fatlað hinsegin fólk er ítrekað spurt hvort það sé visst um að það sé hinsegin því ríkjandi staðalmyndir um fatlað fólk fela í sér að það sé kynlaust og því ófært um að hafa kynhneigð eða kynvitund.
- Salerni eru bara fyrir karla og konur, ekki kynsegin fólk.
- Þegar orð eins og gay eða hommalegt eru notuð um eitthvað neikvætt.
- Þegar samkynhneigðir karlar af asískum uppruna eru kallaðir „gaysians“.
- Athugasemdir á borð við:
- Þessar lesbíur eru alltaf svo nískar.
- En hvað þú ert heppin að vera svona kvenleg trans kona.
- Við femínistar erum ekki allar karlhatandi lesbíur.
- Ég hefði aldrei trúað því að þú værir hommi, þú ert svo karlmannlegur.
- Þegar sís og gagnkynhneigðu fólki finnst niðrandi að einhver haldi að það sé hinsegin.