Trans konur sem holdgervingar feðraveldisins
Í gegnum tíðina hafa margir femínistar komið fram og lýst yfir andúð sinni á trans fólki, einkum trans konum. Þessar raddir voru líklega háværastar á áttunda áratug 20. aldar. Til hóps transútilokandi femínista (TERFs) má meðal annars telja þekkta femínista eins og Sheilu Jeffreys, Janice Raymond og Germaine Greer. Hugmynd þessara og fleiri femínista er sú að konur séu undirokaðar og kúgaðar vegna líffræðilegra eiginleika, það er að segja getu þeirra til að eignast börn. Trans konur deili ekki þessari líffræði og geti því ekki talist raunverulegar konur. Þvert á móti sé tilvist trans kvenna sem fara í gegnum læknisfræðilega kynleiðréttingu ein birtingarmynd feðraveldis sem sé að reyna að skapa konur eftir sínum fyrirframgefnu útlitsstöðlum. Trans konur séu í raun karlar sem séu að ráðast inn á svæði og menningu kvenna. Að auki búi þær ekki við þá kúgun sem „alvöru konur“ búi við því þær deili ekki líffræðinni sem þessi hópur femínista telur forsendu allrar kúgunar. Transútilokandi femínistar halda því einnig fram að trans konur búi í raun yfir forréttindum karla því þær hafi verið félagsmótaðar sem drengir í æsku.
Mikil og sterk gagnrýni hefur komið fram á þennan anga femínisma og hann hefur meðal annars verið nefndur TERF: Trans Exclusionary Radical Feminism. Meðal annars hafa þekkir femínistar á borð við Judith Butler tekið afstöðu með trans fólki og talað fyrir samstöðu ólíkra hópa kvenna fremur en útilokun. Femínistar sem aðhyllast samtvinnun hafa bent á að enginn einn sannleikur eða veruleiki myndi sameiginlega reynslu allra kvenna. Þvert á móti hafi kynvitund, kynhneigð, fötlun, stétt, þjóðerni og fleiri þættir afgerandi áhrif á það með hvaða hætti konur séu jaðarsettar í hverju samfélagi. Þær eigi það þó sameiginlegt að vera á einn eða annan hátt kúgaðar af kynjakerfinu vegna kyns síns.
TERF Trans Radical Exclusionary Feminism