Hvað eru samkynhneigð viðmið?

Samkynhneigð viðmið er hugtak sem var fyrst notað af fræðikonunni Lisu Duggan í bókinni The Twilight of Equality? Neoliberalism, Cultural Politics, and the Attack on Democracy til að lýsa því hvernig hinsegin fólk, sérstaklega samkynhneigt fólk, hefur tekið upp gagnkynhneigð viðmið, gildi og hugsjónir.

Æskilegt að líkjast gagnkynhneigðum

Samkynhneigð viðmið eru hliðstæð gagnkynhneigðum viðmiðum en ýta þó ekki undir það álit að allir séu samkynhneigðir þar til annað komi í ljós á sama hátt og gagnkynhneigð viðmið gera ráð fyrir að allir séu gagnkynhneigðir. Þvert á móti lýsa samkynhneigð viðmið því hugarfari meðal hinsegin fólks að það sé æskilegt að líkjast gagnkynhneigðu fólki sem mest og taka upp gildi þeirra. Jafnframt er hinsegin fólk verðlaunað fyrir að herma eftir gagnkynhneigðum gildum. Til að mynda hefur samfélagið meiri mætur á karlmannlegum samkynhneigðum mönnum en þeim sem þykja kvenlegir vegna þess að ríkjandi samfélagsleg gildi hygla körlum og karlmennsku á kostnað kvenna og kvenleika. Þannig hefur ákveðið hinsegin fólk, sérstaklega það sem nú þegar hefur mest völd og besta félagslega stöðu, ákveðinn ávinning af því að viðhalda ríkjandi valdakerfi sem jaðarsetur aðra hópa hinsegin fólks. [1] [2] Þess konar pólitík dregur ekki ráðandi gagnkynhneigð viðmið eða stofnanir í efa en gengst við og viðheldur þeim. Hún leiðir af sér menningu sem er ópólitísk og byggð á fjölskyldugildum og neyslu.

Í daglegu tali er hugtakið samkynhneigð viðmið stundum notað til að lýsa áhrifum samkynhneigðs fólks innan hinsegin samfélagsins og tilhneigingunni til þess að setja réttindi og hagsmuni samkynhneigðra í forgrunn.

En á ensku?

Homonormativity