Kyneinkenni vísa til litninga, kynkirtla og líffærafræðilegra sérkenna manneskju, til dæmis æxlunarfæra, uppbyggingar kynfæra, hormónastarfsemi, vöðvauppbyggingar, dreifingar hárs, brjóstavaxtar og/eða hæðar. Það fólk sem er með ódæmigerð kyneinkenni er intersex.

Intersex

Intersex er hugtak sem, eins og kemur fram á vef samtakanna Intersex Ísland: „nær yfir breitt svið af meðfæddum líkamlegum einkennum eða breytileika sem liggja á milli okkar stöðluðu hugmynda um karl- og kvenkyn. Intersex einstaklingar fæðast með einkenni sem eru ekki algjörlega karl- eða kvenkyns; sem eru sambland af karl- og kvenkyns; eða sem eru hvorki karl- né kvenkyns.

Margar formgerðir of intersex eru til. Um er að ræða skala eða regnhlífarhugtak frekar en einn eiginlegan flokk. Sumar algengar intersex-formgerðir eru greindar á meðgöngu. Intersex breytileiki getur verið sjáanlegur við fæðingu. Sumir intersex eiginleikar koma í ljós við kynþroska, þegar reynt er að geta barn, eða fyrir einskæra tilviljun.“

Aðgerðir á intersex fólki

Sumt intersex fólk er með ódæmigerð kynfæri en það á alls ekki við um allt intersex fólk. Helstu baráttumál intersex fólks tengjast heilbrigðiskerfinu og auknu sjálfræði intersex einstaklinga gagnvart því, sérstaklega í tengslum við aðgerðir og læknisfræðileg inngrip.

Í raun má skipta aðgerðum á kynfærum intersex fólks í þrjá flokka. Í fyrsta lagi er um að ræða aðgerðir sem eru læknisfræðilega nauðsynlegar, til dæmis ef opna þarf fyrir þvagrás. Í öðru lagi eru aðgerðir sem intersex fólk tekur upplýsta ákvörðun um að það vilji fara í. Þetta geta til dæmis verið aðgerðir á kynfærum sem ekki eru læknisfræðilega nauðsynlegar vegna óþæginda. Í þriðja lagi eru aðgerðir sem gerðar eru á intersex börnum, oft mjög ungum, sem ekki hafa skýran læknisfræðilegan tilgang. Til að mynda tíðkast mjög víða að skera af sníp intersex stelpna ef hann þykir of stór. Það eru þessar aðgerðir og sambærilegar normalíserandi aðgerðir sem intersex samtök berjast gegn.

En á ensku?

Intersex



Orð um orð

Intersex hefur verið þýtt á íslensku sem millikynja en intersex fólk hefur ekki kosið að nota það. Áður fyrr var intersex þýtt sem viðrini og raunar eru ekki nema örfá ár síðan sú þýðing sást síðast.


Viltu vita meira?