Hán – hé – hín
Sumt kynsegin fólk kýs að nota kynhlutlaus persónufornöfn. Íslensk persónufornöfn sem notuð eru um fólk vísa alltaf til karlkyns (hann) eða kvenkyns (hún). Að auki er til hvorugkynspersónufornafnið það sem er almennt ekki notað um manneskjur. Nýlega hafa fornöfnin hán, hé og hín rutt sér til rúms hérlendis. Þau eru einkum notuð af kynsegin fólki. Orðin taka oftast með sér hvorugkyn (þótt það geti verið misjafnt hvað fólk kýs í þeim efnum). Umræður gætu þá hljómað svo:
Hán er svangt
Ég fékk lánaða bókina háns
Hé er lögfræðingur, ég hef góða reynslu af þjónustu hés
Hín er svo góðhjartað að lána mér teppið sitt
Mjög mikilvægt er að virða val hvers og eins á persónufornafni. Víða innan hinsegin samfélaga tíðkast að fara svokallaðan nafna- og fornafnahring þegar hópur fólks hittist í fyrsta sinn. Þá segir fólk hvað það heitir og hvaða fornafn það kýs að fólk noti um sig, til dæmis: Ég heiti Sigurður og nota fornafnið hann.
Hán yfir ókyngreinda manneskju
Eins og segir hér að ofan kýs sumt fólk að nota ókyngreind persónufornöfn og er þá oftast um kynsegin manneskju að ræða. Hins vegar er önnur notkun orðsins einnig möguleg og að ryðja sér til rúms. Hán er nefnilega líka hægt að nota um manneskju sem við þekkjum ekki og vitum ekki af hvaða kyni er. Til dæmis:
Helena: Ég og maki minn fórum á æskuslóðir mínar í sumarfríinu.
Hannes: Hvernig líkaði háni?
Í dæminu notar Hannes hán af því að Hannes veit ekki af hvaða kyni maki Helenu er. Annað dæmi um slíka notkun á orðinu hán má sjá í þessum pistli þar sem rætt er um ótilgreinda manneskju.
Hvort sem um er að ræða manneskju sem kýs ókyngreint persónufornafn eða notkun á fornafninu hán um manneskju sem við þekkjum ekki finnst flestum skrýtið að tala um fólk í hvorugkyni til að byrja með. Góð leið til að æfa sig á því er að hugsa um orðið skáld. Skáld er hvorugkyns orð og á við um manneskju. Við segjum óhikað að skáldið sé fallegt, gott, svangt eða góðhjartað. Í þessum málum og öðrum gildir að æfingin skapar meistarann.
Einnig á ensku: (f)ae, e/ey, per, ve, xe, ze/zie Sænska: Hen, hens Athugið að hán er persónufornafn en ekki nafnorð. Þannig er ekki hægt að segja manneskjan er hán eða sumt fólk er hán. Réttara væri að segja manneskjan er kynsegin. Hán er notað á sama hátt og önnur persónufornöfn eins og hann og hún. Fallbeyging: Hán, hán, háni, háns.
They, them, their, theirs
Hé, hé, héi, hés.
Hín, hín, híni, híns.