Norm – samfélagslegir staðlar

Norm er það sem samfélagið hverju sinni skilgreinir sem venjulegt eða dæmigert. Gagnkynhneigð er innan normsins á meðan aðrar kynhneigðir eru utan þess. Sískynja fólk er innan normsins en aðrar kynvitundir utan þess. Lokað parsamband er innan normsins en fjölástir utan þess. Það hvað telst norm hverju sinni getur tengst löggjöf en þarf ekki að gera það. Það telst til dæmis utan normsins á Íslandi í dag að vera pankynhneigður en pankynhneigðir hafa samt sama lagalega rétt og gagnkynhneigðir, til dæmis til að ganga í hjónaband og hafa aðgang að störfum og skólakerfinu.

Norm innan hinsegin samfélagsins

Innan hinsegin samfélagsins telst það norm að vera samkynhneigður en utan normsins að vera tvíkynhneigður, pankynhneigður eða eikynhneigður. Þar telst einnig innan normsins að vera trans manneskja sem fer í hefðbundið kynleiðréttingarferli og skilgreinir sig innan kynjatvíhyggjunnar en utan normsins að vera kynsegin trans manneskja sem fer ekki í kynleiðréttingarferli og skilgreinir sig utan kynjatvíhyggjunnar. Normið innan hinsegin samfélagsins hefur þó breyst hratt með yngri kynslóðum. Þær hafa mótað sinn sjálfsskilning á tímum þar sem fleiri orð eru í boði til að skilgreina sig. Yngri kynslóðir hafa einnig meira frelsi til að skilgreina sig einfaldlega sem hinsegin og því eru líklega hlutfallslega færri meðal þeirra en eldri kynslóða sem skilgreina sig sem samkynhneigð.

Teikning eftir Björgu Guðrúnu Gísladóttur

Karlmenn sem norm

Femínistar hafa oft bent á að konur séu skilgreindar utan normsins; að normið í samfélagi okkar sé karl. Frægust slíkra umfjallana er án efa bók Simone de Beauvoir, Hitt kynið. Dæmi um þetta er nær öll umfjöllun um íþróttir. Þegar rætt er um fótbolta liggur á milli línanna að átt sé við karlafótbolta. Þegar rætt er um kvennafótbolta er það hins vegar alltaf tekið fram að átt sé við kvennafótbolta. Það sama mátti sjá í auglýsingu einni um skáknámskeið fyrir börn þar sem annars vegar voru einfaldlega auglýst „skáknámskeið“ en neðar í sömu auglýsingu „skáknámskeið fyrir stelpur“.

Viljum við vera í norminu eða utan þess?

Mikið hefur verið rætt og ritað um það hvort hópar sem standa utan normins eigi að berjast fyrir innlimun í það – þannig að ólíkar kynhneigðir og kynvitundir verði norm og að normið verði útvíkkað – eða hvort hópar utan normsins eigi að krefjast jafnréttis og virðingar þrátt fyrir að vera utan normsins.