Hvað er hatursáróður?

Það er kallað hatursorðræða eða hatursáróður þegar fólk særir, móðgar eða hótar fólki eða hópum fólks á grundvelli fötlunar, kynþáttar, litarhafts, trúar, þjóðernisuppruna, kynhneigðar, kynvitundar o.fl. [1] Hatursorðræða getur haft mjög alvarlegar afleiðingar. Hún á þátt í að kynda undir ofbeldi gegn minnihlutahópum sem getur endað með hörmungum, samanber fjöldamorð Þjóðverja á gyðingum, hinsegin fólki, fötluðu fólki og kommúnistum í síðari heimsstyrjöldinni. Sökum þess þykir hatursáróður svo alvarlegur að réttlætanlegt sé að takmarka tjáningarfrelsi til að koma í veg fyrir hann.

Hatursáróður á Íslandi

Hér á Íslandi eru í gildi ýmis lög sem banna hatursáróður. Skv. 233. gr. almennra hegningarlaga er tjáning kynþáttahaturs og annars konar fordóma bönnuð og refsiverð en þar segir: „Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“ Einnig er Ísland aðili að ýmsum samningum sem leggja bann við hatursáróðri.

Hatursáróður er ekki skilgreindur í íslenskum eða erlendum rétti og því er hann stundum túlkaður mjög þröngt. Sökum þess gerist það ekki oft að sakfellt sé fyrir hatursáróður en þá er litið til ásetnings og frumkvæðis, til dæmis hvort viðkomandi hafi skipulagt áróðurinn fyrirfram. Sem dæmi má nefna þegar hópur einstaklinga var dæmdur fyrir að dreifa bæklingum með niðrandi og hatursfullum ummælum um hinsegin fólk í menntaskóla í Svíþjóð. Hópurinn áfrýjaði til Mannréttindadómstóls Evrópu sem komst að þeirri niðurstöðu að sænski dómurinn bryti ekki gegn tjáningarfrelsi þeirra sem dreifðu bæklingnum. Var þá horft til þess að hópurinn hafði skipulagt dreifinguna fyrirfram, stundað áróður meðal sérstaklega viðkvæms aldurshóps og farið inn í skóla sem enginn úr hópnum stundaði nám við.Skilgreiningar á hatursorðræðu og hatursáróðri

Í almennri umræðu eru hugtökin hatursorðræða og hatursáróður skilgreind á talsvert víðari hátt. Minna er litið til ásetnings og undirbúnings en meiri áhersla lögð á innihald ummælanna og þau áhrif sem þau hafa á samfélagsstöðu og jaðarsetningu viðkomandi hóps.

Árið 2015 átti sér stað umfangsmikil fjölmiðla- og vefumræða vegna þess að Hafnarfjarðarbær ákvað að taka til skoðunar að innleiða hinsegin fræðslu í alla skóla þar í bæ. Í umræðunum lét fjöldi fólks ljót ummæli falla um hinsegin fólk, svo ljót að Samtökin ’78 ákváðu að kæra tíu einstaklinga til lögreglu fyrir hatursummæli. Þegar þetta er skrifað hefur málinu verið vísað frá dómi í héraði en bíður mögulega áframhalds í Hæstarétti.

Ýmsir hafa efast um að um hatursáróður sé að ræða. Til að mynda vill Björg Thorarensen, prófessor í lögfræði, gera skýran greinarmun á þessum ummælum og sænska tilfellinu hér að ofan á þeim forsendum að í síðara tilfellinu hafi áróðurinn verið rækilega skipulagður fyrirfram en í síðara tilfellinu sé um að ræða viðbrögð við opinberri umræðu. Réttarkerfið horfir því aðallega til ásetnings í skilgreiningu sinni á hatursorðræðu á meðan afleiðingar fyrir þolendur skipta meira máli í almennri umræðu. Þetta gerir það að verkum að merking hugtaksins er mjög á reiki og fólk vísar til ólíkra fyrirbæra þegar það talar um hatursáróður eða hatursorðræðu.

Samtökin ’78 ásamt lögmanni þeirra, Björgu Valgeirsdóttur, höfnuðu þessari þröngu túlkun sem sjá má í máli Bjargar Thorarensen. Ummælin séu greinilega hæðandi og smánandi í garð fólks vegna kynhneigðar þess og að auki sett fram á opinberum vettvangi.

Teikning: Björg Guðrún Gísladóttir

Hatursglæpir

Náskyldir hatursorðræðu eru hatursglæpir. Það eru glæpir gegn fólki sem framdir eru að hluta til eða öllu leyti vegna fordóma eða haturs á grundvelli fötlunar, kynþáttar, kynhneigðar, kynvitundar, uppruna o.s.frv. Morð og skemmdarverk eru algengir hatursglæpir erlendis. Stærstu hinsegin samtökin í Bandaríkjunum hafa í vaxandi mæli rætt um þörf á sterkari löggjöf gegn hatursglæpum. Aftur á móti hafa einstaklingar og samtök sem eru jaðarsett innan hinsegin hreyfingarinnar þarlendis lagst gegn slíkum lögum á þeim forsendum að þau efli fangselsisiðnaðinn og styrki hann í sessi en það bitni sérstaklega á jaðarsettustu hópum samfélagsins, til að mynda trans fólki og svörtu hinsegin fólki.