Tákn
Hinsegin fólk hefur notast við alls konar tákn í gegnum tíðina í ólíkum tilgangi. Sum táknanna voru notuð til að láta annað hinsegin fólk vita að viðkomandi væri einnig hinsegin á tímum þegar fólk átti á hættu að vera lögsótt eða verða fyrir ofbeldi ef upp komst um kynhneigð eða kynvitund þess. Þessi tákn voru þá gjarna notuð í tilhugalífinu, til dæmis til að sýna að viðkomandi hefði áhuga á fólki af sama kyni. Sum táknanna eru einnig tengd réttindabaráttunni og hafa þá þann tilgang að hvetja fólk til dáða og auka sýnileika mismunandi hópa hinsegin fólks, jafnt innan meirihlutasamfélagsins sem samfélaga hinsegin fólks þar sem til dæmis tvíkynhneigðir, pankynhneigðir og trans fólk er gjarna jaðarsett.
Breytileg tákn eftir löndum
Tákn þessi eru ólík og breytileg milli landa og eftir því hvers konar hinsegin fólk er um að ræða. Sem dæmi má nefna að samkynhneigðar konur hafa táknað kynhneigð sína með hring á litla fingri eða einfaldri silfurkeðju um hálsinn án nistis. Þá má ekki gleyma flóknu táknkerfi samkynhneigðra karla sem settu vasaklúta í rassvasa sinn en litur klútsins og staðsetning fór eftir því hvers konar kynlíf viðkomandi hafði áhuga á að stunda.
Þríhyrningar
Meðal þeirra tákna sem notuð eru til merkis um baráttu og stolt eru bleiki þríhyrningurinn fyrir samkynhneigða karla og svarti þríhyrningurinn fyrir samkynhneigðar konur. Þessi tákn eiga sér sorglega sögu en þau voru notuð til að merkja fólk í útrýmingarbúðum nasista. Bleiki þríhyrningurinn var á fangabúningum samkynhneigðra karla en talið er að fimm til fimmtán þúsund þeirra hafi endað í útrýmingarbúðunum. Svarti þríhyrningurinn var saumaður á búninga kvenna sem þóttu andfélagslegar en meðal þeirra voru samkynhneigðar konur, femínistar og vændiskonur.
Tákn tvíkynhneigðs fólks samanstendur jafnframt af tveimur þríhyrningum, einum bláum, sem táknar líklega ást á körlum, og öðrum bleikum, sem táknar ást á konum. Þeir skarast og mynda saman þriðja þríhyrninginn sem er fjólublár og táknar ást á konum og körlum. Lítið er vitað um uppruna þessa merkis en afar líklegt er að það vísi til bleika og svarta þvíhyrningsins.
Önnur merki:
Hinsegin fólk notar einnig eftirfarandi tákn. Athugið að þessi upptalning er alls ekki tæmandi.
Regnbogafáninn
Þekktast táknanna er vafalaust regnbogafáninn en færri vita að hinsegin fánarnir eru miklu fleiri. Regnbogafáninn var hannaður og saumaður af listamanninum Gilbert Baker sem hafði sest að í San Francisco á áttunda áratug 20. aldar og saumaði alls konar fána og borða fyrir hinsegin göngur og viðburði. Árið 1978 báðu aðstandendur pride-göngunnar í San Francisco Baker um að hanna nýtt varanlegt merki. Hann valdi regnbogann vegna þess að með honum gæti hann táknað þann fjölbreytileika sem væri til staðar í hinsegin samfélagi borgarinnar. Fyrsta útgáfa fánans var með átta röndum í ólíkum litum sem allir höfðu ólíka merkingu. Bleikur táknaði kynlíf, rauður líf, appelsínugulur lækningu, gulur sólarljós, grænn náttúru, blár list, indigo-blár sátt og samlyndi og blár táknaði mannsandann. Baker handlitaði og -saumaði fyrsta fánann en þegar kom að því að prenta hann kom á daginn að bleikur var ekki fáanlegur til áprentunar svo hann var felldur brott ásamt indigó-bláum. Eftir stóð fáni með sex röndum eins og við þekkjum hann í dag.
Í anda Bakers er regnbogafáninn baráttufáni alls hinsegin fólks en hann er þó oft notaður sem tákn fyrir samkynhneigða eingöngu. Því hefur annað fólk innan hinsegin samfélagsins búið til eigin fána til að vekja athygli á tilvist sinni og baráttu. Hér eru nokkrir þeirra:
Fáni tvíkynhneigðra
Þessi fáni skiptist í þrjá hluta, bleikan flöt efst og bláan flöt neðst og lárétta fjólubláa rönd í miðjunni sem skilur stærri hlutana tvo að. Litasamsetningin er fengin frá fyrrgreindu þríhyrningstákni. Uppruni þess er óviss en talið er að blái þríhyrningurinn tákni ást á körlum, sá bleiki ást á konum og sá fjólublái ást á körlum og konum. Fáni tvíkynhneigðra var hannaður af Michael Page árið 1998.
Fáni trans fólks
Fáni trans fólks skiptist í fimm rendur, tvær bláar rendur, önnur er efst og hin neðst á fletinum, eina hvíta í miðjunni og tvær bleikar milli hvítu línunnar og beggja bláu línanna. Bláu línurnar vísa til litarins sem er oft látinn tákna drengbörn og sá bleiki til litarins sem er látinn tákna stúlkubörn. Hvíta línan táknar síðan þau sem eru trans, intersex eða tilheyra óskilgreindu eða engu kyni. Fáninn var hannaður af Monicu Helms árið 1999.
Fáni intersex fólks
Fáni intersex fólks er fjólublár hringur á gulum fleti en þeir litir eiga að tákna Hermafródítu. Hinn óbrotni hringur táknar að intersex fólk sé heilt og fullkomið og auk þess rétt intersex fólks til að vera eins og þau vilja vera.
Fáni kynsegin fólks
Þessi fáni skiptist í þrjá jafnstóra fleti, fjólubláan flöt efst, grænan flöt neðst og hvítan flöt í miðjunni. Fjólublái flöturinn táknar vífguma (androgynous) fólk, hvíti liturinn kynhlutleysi og sá græni kynvitundir sem falla utan kynjatvíhyggjunnar. Fáninn var hannaður af Marilyn Roxie árið 2010.
Fáni eikynhneigðs fólks
Þessi fáni skiptist í fjórar rendur. Efst er svört rönd sem táknar eikynhneigð, síðan grá rönd sem táknar gráa svæðið milli eikynhneigðar og annarra kynhneigða, þá hvít rönd sem táknar kynverund og loks fjólublá rönd sem táknar samfélag. Fáninn leit dagsins ljós árið 2010 en hann var vinningstillaga í samkeppni The Asexual Visibility and Education Network sem eru alþjóðleg samtök eikynhneigðs fólks.
Fáni pankynhneigðs fólks
Þessi fáni var hannaður sérstaklega í þeim tilgangi að aðgreina pankynhneigð frá tvíkynhneigð og því vísar fáni pankynhneigðs fólks beint til fána tvíkynhneigðs fólks. Báðir samanstanda af þremur röndum, bleikri efst og blárri neðst. Munurinn er að í fána pankynhneigðs fólks er gul lína í miðjunni, ekki fjólublá. Bleika línan táknar fólk sem skilgreinir sig sem kvenkyns og sú bláa táknar fólk sem skilgreinir sig sem karlkyns. Gula línan táknar síðan fólk sem stendur utan þessarra flokka hvað kyn varðar.
Fáni fjölkynhneigðs fólks
Þessi fáni kallast á við fána pankynhneigðs fólks og er að mestu leyti eins fyrir utan að miðlínan er græn en ekki gul. Grænn táknar líklega það að laðast að fólki sem stendur utan kynjatvíhyggjunnar.
Leðurfáninn
Þetta er fáni ákveðins menningarkima sem felur í sér leðurklæðnað og opinskátt kynlíf. Í fánanum eru níu láréttar rendur, átta svartar og kóngabláar og ein hvít rönd í miðjunni. Í efra vinstra horni er rautt hjarta. Fáninn var hannaður árið 1989 af Tony DeBlaise. Fáninn er oft notaður sem tákn BDSM-samfélagsins.
Bjarnafáninn
Líkt og leðurfáninn er þetta fáni hinsegin menningarkima en birnir er slanguryrði yfir stórvaxna sam- og tvíkynhneigða karla með mikið af líkamshárum. Fáninn samanstendur af sjö línum sem hver er á litinn eins og feldur ólíkra bjarnategunda í heiminum. Í efra vinstra horni er svört bjarnarkló.
Varalitalesbíufáninn
Varalitalesbíur, eða Lipstick lesbians, er slanguryrði yfir mjög kvenlegar samkynhneigðar konur. Í fána þeirra eru sjö láréttar línur í ólíkum bleikum litum og bleikar varir í efra vinstra horni.