Hvað eru staðalmyndir?

Staðalmyndir eru fyrirframákveðnar hugmyndir um útlit og/eða eiginleika fólks sem tilheyrir ákveðnum hópi eða stétt innan samfélagsins, til dæmis um hvernig það eigi að hegða sér og hvaða störf séu við hæfi þess.

Staðalmyndir geta haft mikil áhrif, sér í lagi á fólk sem tilheyrir hópum sem fylgja sterkar staðalmyndir og samskipti þeirra við aðra. Til að mynda getur sú staðalmynd að stúlkur séu glysgjarnar ýtt undir að keypt séu skrautleg og litrík föt fyrir þær án þess að kannað sé hvort þær hafi áhuga á slíkum fötum. Þá getur sú staðalmynd að pankynhneigt fólk sé lauslátt orðið til þess að það verði fyrir fordómum eða jafnvel ofbeldi í nánum samböndum. Einnig er alþekkt sú staðalmynd að hommar geti ekkert í íþróttum en hún getur ýtt undir óöryggi þeirra við íþróttaiðkun.